Miðvikudagur, 15. maí 2013
Umferðarmenningin í Stafangri
Ég er enn mjög upptekin af útlandinu sem ég var í í síðustu viku. Verðlag í Noregi er hátt og kaup í skikkanlegu samræmi við það, skilst mér. Vorið í ár er kalt og við guldum fyrir það. Gott og blessað, maður ræður ekki öllu.
Það sem kom mér hins vegar á óvart var að bílar stoppuðu skilyrðislaust við gangbrautir, og það þótt maður nálgaðist bara gangstéttarbrúnina. Það eru hörð viðurlög við því að hleypa ekki gangandi yfir. Það er dýrt að reka bíl og almenningssamgöngur virtust góðar. Það kostar 650 norskar (um 14.000 á gengi dagsins) að taka strætó vítt og um vítt í heilan mánuð og margir gera það þrátt fyrir að þurfa um langan veg í vinnu og skóla.
Við sáum óteljandi ungmenni í rauðum smekkbuxum og eftir því sem ég kemst næst er menningin meðal útskriftarnema sú að vera í sömu auðþekkjanlegu buxunum í heilan mánuð, djamma og reyna að skora sem mest og fá hnúta eða önnur merki á buxurnar. Hnútarnar fást fyrir að sofa hjá formanni nemendafélagsins, sofa hjá kennara, drekka hvítvínsflösku á sjö mínútum og guðmávitahvaðannaðgáfulaust. Ég get alveg skilið að ungviðinu finnist þetta sniðugt um tíma en ég get ekki skilið að skólayfirvöld leggi blessun sína yfir þetta keppikefli. Kannski gera þau það ekki og sannast sagna voru flestar buxurnar snyrtilegar og enginn buxnahafi sýnilegar ölvaður. En kannski var ég bara ekki á réttu stöðunum því að þau eru í buxunum í heilan mánuð, við allar athafnir. Ég sá svona buxnafólk á Preikestolen sem er frægt túristafjall og það var bara í fjallgöngu eins og við hin.
Og fólk reykti og reykti, meira en ég verð vör við hér heima, sennilega álíka mikið og í Danmörku. Ég held að forvarnir skipti máli og ég held að þær séu meiri hér en þar.
Þetta situr í mér eftir heimkomuna.
Athugasemdir
Lenti í þessu í Vestmannaeyjum um daginn. Mátti ekki horfa í áttina að götunni, þá voru bílarnir búnir að stoppa fyrir mig. Yndislegt, verð að segja það.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 20.5.2013 kl. 22:21
Og þar eru áreiðanlega engin sérstök viðurlög, bara gott fólk ...
Berglind Steinsdóttir, 21.5.2013 kl. 08:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.