Sjósund fyrr og síðar

Í sjónvarpi allra landsmanna var sýndur á sunnudag, og endursýndur í fyrradag, þáttur um sund, þar á meðal frá meintu Helgusundi úr Harðar sögu og Hólmverja. Ég sá ekki frumsýninguna en mamma benti mér á þáttinn þannig að ég náði obbanum af honum í endursýningu og hjó sérstaklega eftir því að Helga var í einhverju síðu og efnismiklu og synti með hausinn upp úr eins og svanur. Þetta sund bar á góma í göngu á Brekkukamb með gönguklúbbnum Veseni og vergangi fyrir mánuði og nú rifjaðist upp að ég ætlaði að skoða frásögnina í hinni fornu sögu. Og hún er svona í útgáfu minni frá 1934, bls. 79:

Helga er nú í Hólminum ok þykkisk vita nú allar vælar ok svik landsmanna. Hon hugsar nú sitt mál; þat verðr nú hennar ráð, at hon kastar sér til sunds og leggsk til lands ór Hólminum um nóttina ok flutti með sér Björn son sinn fjögra vetra gamlan, til Bláskeggsár, ok þá fór hon móti Grímkatli syni sínum átta vetra gömlum, því at honum dapraðist sundit þá, ok flutti hann til lands; þat heitir nú Helgusund.

Eftir þetta gengu þau drjúga stund og leituðu skjóls hjá góðu fólki.

Nú er frá því að segja að mamma var dálítið skúffuð yfir því að Eyjólfs sundmanns var ekki getið og kann skúffelsi hennar að vera eðlilegt. Þátturinn heitir Sundið og þar var meðal annars fjallað um þegar karlar hættu að geta synt naktir af því að kona fór að æfa með þeim en mest var fjallað um tilraun Benedikts Hjartarsonar til að þreyta Ermarsund. Nútímamenn búa við aðeins betri skilyrði en menn gerðu forðum daga þegar þeir voru ekki smurðir í bak og fyrir og þurftu að henda sér í sjóinn með engum fyrirvara og bara eins og þeir stóðu. Og koma sér svo í skjól undan óvininum þegar þeir komu á land hinum megin.

Ekki þar fyrir, alvörusjósundsfólk í dag er duglegt fólk og ég skal komast í þann hóp, *hóst*. En enn lifir ráðgátan um sund Helgu úr Hólmanum í Hvalfirði yfir til Bláskeggsár í dragsíðu vaðmálspilsi með einn fjögurra ára á bakinu og annan átta ára skammt undan sem líka þurfti hjálpar með. Og þegar hún skokkaði upp fjallið í þættinum var ekki að sjá á henni blautan þráð.

Ætli það geti verið að Íslendingasögurnar séu ekki hárnákvæm vísindi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég þarf einmitt að fara að koma mér í sjóinn þetta vorið.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 23.5.2013 kl. 10:09

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Og ég líka.

Berglind Steinsdóttir, 23.5.2013 kl. 20:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband