Fimmtudagur, 23. maí 2013
Sval og Val á þing?
Mér finnst sú hugmynd Stefáns Pálssonar að tala klukkustundum saman um teiknimyndapersónur alveg frábær. Ég heyrði bláupphaf hennar í gær þegar hann talaði um langar þingræður. Lengsta skráða ræða á þingi var flutt af Jóhönnu Sigurðardóttur 14. maí 1998. Hún var þá í stjórnarandstöðu og fjallaði í 10 klukkustundir og 7 mínútur um húsnæðismarkaðinn. Ræða hennar var hins vegar í þrennu lagi, fyrsti hlutinn stóð yfir frá 12.27-12.59, næsti 13.34-19.04 og sá síðasti 20.32-00.37, allir vel skráðir á vef þingsins. Lengsti samfelldi hlutinn var því fimm og hálf klukkustund og Stefán ætlaði a.m.k. að slá það met. Aðdáunarverður metnaður hjá honum.
Hins vegar skilst mér að honum hafi yfirsést lengsta samfellda ræðan sem var flutt af Ögmundi Jónassyni aðfaranótt 5. apríl 2006, frá 23.10-05.12. Hún stóð sem sagt í 6 klukkustundir og 2 mínútur. Hún er auðvitað aðgengileg á vef Alþingis, það er m.a.s. hægt að hlusta á hana eins og hún leggur sig.
Stefán mundi líka eftir frægri ræðu Valdimars Leós Friðrikssonar um vatnalögin sem hann flutti 14. mars 2006 og stóð í 4 klukkustundir og 10 mínútur. Kannski er hún bara fræg í þröngum hópi og kannski er hún frægust fyrir þessi orð:
Frú forseti. Það líður nú að seinni hluta í ræðu minni en henni er langt í frá lokið. En kannski er það enn eitt nýliðabrekið að nú hef ég þambað mikið af vatni til að halda röddinni og spyr því forseta hvort það sé möguleiki á að ég geri hér tveggja mínútna hlé á ræðu minni og fái að stökkva á salernið.
(Forseti (ÞBack): Forseti heimilar skjóta ferð fram á salerni við þessar aðstæður og gerir stutt hlé á þingstörfum.)
Ætli hann hafi ekki talað í svona klukkutíma eftir að hann kom til baka. Áhugasöm geta hlustað á ræðuna í heild sinni og tímamælt.
Og nú hefur Stefán viðrað þá hugmynd að slá eigið 13,5 klukkustunda met þegar Svalur og Valur eiga 100 ára afmæli 2038. En vegna þingskapabreytinga er óvíst að nokkur þingræða verði lengri en þær sem þegar hafa verið fluttar.
Þetta var nú skemmtileg samantekt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.