Miðvikudagur, 29. maí 2013
,,Eggin brotin"
Brotin egg er bók sem ég tók upp til að lesa út úr hálfgerðri neyð. Ég hafði séð heldur neikvæðan dóm um að bókin væri pólitísk klisja sem varpaði jákvæðu kapítalísku ljósi á umbrotin í Austur-Evrópu um 1990 og var þess vegna mjög hikandi. En hún fór vel í vasa og ég á leið í flug.
Mér finnst enn skrýtin tilhugsun að Breti á sjötugsaldri skrifi út frá sjónarhóli Pólverja um uppvöxt hans í lok síðari heimsstyrjaldarinnar og að svo virðist sem hann hafi sérstaka ástríðu fyrir umfjöllunarefni sínu. En þar lýkur efasemdum mínum. Þrátt fyrir að sögusviðið sé meginland Evrópu um 1990 með skýlausar skírskotanir í fortíðina, helför, aðskilnað og gúlag er bókin fyrst og fremst um manneskju í afneitun, manneskju sem tekur ekki ákvarðanir heldur lætur reka á reiðanum, gerir ýmislegt svo sem en allt af helberri tilviljun. Hann er þolandi í eigin lífi. Það byrjar auðvitað með því að hann er barnungur sendur úr landi, sendur burt af móður sinni til að þeim bræðrunum yrði bjargað, hugsanlega frá dauða. Svo leiðir eitt af öðru, hann heldur að hann lifi hinu bærilegasta lífi, er með örugga vinnu, sér fyrir sér, ferðast um en svo þegar til stykkisins kemur hefur hann aldrei tekið neina ákvörðun sjálfur, hann er viljalaust rekald - og að ástæðulausu. Hefur það svo sem ekki slæmt ...
Forsjónin rekur framan í hann sitt ygglda andlit og hann neyðist til að velta fyrir sér næstu skrefum sem hann þarf sjálfur að taka ákvörðun um. Og þótt hann sé orðinn sextugur á hann heilmikið inni þannig að hann er ekki vonlaus en ég segi ekki meir ef einhver á bókina ólesna.
Mér finnst sagan mestmegnis vera um ákvörðunarleysi einstaklings, óháð stað og stund. Bónus er samt fyrir mig þegar ég rifja upp dvöl sjálfrar mín í Þýskalandi og heimsókn til Berlínar fyrir fall múrsins og lestarferðalag seinna þegar ég fór til Vínar og heimsótti ömmu stráks sem ég kynntist á ferðalaginu, ömmu sem hafði lifað tímana tvenna, hafði þar á meðal þurft að fela sig á klósetti inn af skrifstofu kærasta síns í heilan vetur í síðari heimsstyrjöldinni. Við amman sátum heilt kvöld og ræddum þessi mál og nú rifjast upp tilfinningin sem hún kom til skila með frásögn sinni 1990.
Skrýtin tímasetning á bókinni en að öðru leyti hin fínasta hugvekja.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.