Laugardagur, 1. júní 2013
Löggilding leiðsögumanna
Við leiðsögumenn komum úr ýmsum áttum. Ég fór til dæmis í leiðsöguskólann haustið 2001 af því að mér fannst ég ekki vita nógu mikið um landið. Með mér á skólabekk sátu reyndir leiðsögumenn og langreyndir bílstjórar ásamt einhverjum sem voru nýbúnir með menntaskóla og voru ekki með mikla lífs- eða starfsreynslu.
Gaman að því. Ellefu árum síðar er ég enn viðloðandi leiðsögn, sem ég var ekkert endilega á leiðinni út í, og finnst það alltaf skemmtilegt. En leiðsögnin er ekki lífsviðurværi mitt. Ég er heppin, ég er í annarri skemmtilegri vinnu á veturna og tek bara það að mér sem mér finnst skemmtilegt, það sem mig langar að gera og fyrir þær ferðaskrifstofur sem ég vil vinna fyrir. Ég þarf ekki að lifa af þessu og frómt frá sagt skil ég ekki að hægt sé að tala um ferðaþjónustu sem heilsársatvinnugrein þótt túristar komi hingað allt árið.
Kjarasamningarnir okkar eru ekki góðir og í einhverju tilliti er við okkur sjálf að sakast. Of margir í röðum leiðsögumanna líta á þetta sem hobbí og finnst óþarfi að greiða sæmilegt tímakaup. Við höfum ekki fengið löggildingu sem þýðir að hver sem er getur kallað sig leiðsögumann og farið í styttri og lengri ferðir með ferðamenn án þess að brjóta lög eða reglur. Sumir óskólagengnir eru fyrirtaksfínir leiðsögumenn og sumir skólagengnir eru ömurlegir leiðsögumenn (ég gef mér þetta út frá tölfræði) en allt gott leiðsöguefni fær betri skólun með því að læra markvisst um svæðin sem til stendur að sýna og æfa sig á tækninni meðan hægur vandi er að leiðbeina og vísa veginn.
Sem faglærður leiðsögumaður, sem félagi í Félagi leiðsögumanna og áhugamaður um bætt kjör og betri þjónustu ætti ég auðvitað að vera viss en ég held aðeins að regnhlífin Samtök ferðaþjónustunnar standi öðru og öðrum fremur í vegi fyrir öllu þessu sem mig dreymir um og væri stéttinni, faginu, farþegunum og landinu til framdráttar. Löggilding leiðsögumanns ferðamanna væri skref í rétta átt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.