Laugardagur, 22. júní 2013
Grunnþarfir ferðamanna
Það er ekki að furða að margir félagsfundir leiðsögumanna fyrr og síðar hafa leiðst út í umræður um klósettmál. Ef fólk fær ekki að borða og drekka eru vandræði. Ef fólk losnar ekki við það aftur eru líka vandræði.
Þegar ég fer með túristana mína á einhvern stað þar sem ekkert er sérstaklega pantað segi ég frá þeim möguleikum sem bjóðast: ís (í þessu frábæra veðri! segi ég yfirleitt með upphrópunarmerki og uppsker allajafna hlátur), kaffi, samloku, nammi, bjór (sums staðar, alveg satt) - og svo er hægt að losa um pláss. Ég man aldrei eftir að hafa komið í sjoppu, hvorki stærri né minni, þar sem túristarnir fara bara á klósettið en ég hef reyndar ekki farið margar hringferðir.
Nú deila menn opinberlega um klósettferðir og innkaup í sömu ferð og ég held að menn verði að losna við einstakar persónur út úr þessu máli. Þetta ætti að vera hluti af stefnunni í ferðaþjónustu í ferðaþjónustulandi. Fólk er alvant því í öðrum löndum að borga sérstaklega fyrir þessa þjónustu. Er nú svo komið að við þurfum einfaldlega að hafa lás á klósettinu? Í fyrrasumar var rukkað á Þingvöllum og er það ekki bara í lagi ef það er vel kynnt?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.