Ofsi veðurguðanna

Nú man ég því miður ekki nafnið á bandaríska þingmanninum sem kenndi Barack Obama um gosið í Eyjafjallajökli í apríl 2010. Barack lagði nefnilega fram frumvarp um heilbrigðisgeirann sem repúblikanum líkaði ekki og hann hélt því fram að þar með hefði eldgosaguðinn orðið brjálaður og rifjað upp gamla takta. Kannski er þetta misminni hjá mér en hugmyndin er góð.

Og þá er tímabært að finna hver ber ábyrgð á því að sumarið virðist ætla að sniðganga Ísland í ár. Það er auðvitað ógleymanlegt að fyrrasumar stóð frá mars og fram í --- guðmásamtvitahversulengi því að ég er búin að gleyma hvenær því lauk. Á þessu ári hefur hitinn farið upp í þolanlegt sumar þrívegis; 16. maí, 22. maí og 22. júní. Ég er auðvitað að tala um Reykjavík og nærsveitir hennar.

Ég er leiðsögumaður af og til og búin að lofa mér dálítið í júlí. Frá upphafi ferilsins hef ég verið tiltölulega heppin með veður og veit að það er snöggtum þægilegra og léttara að sýna fólkið landið í fallegu veðri. Fólk reiknar hiklaust með að hér blási köldu en ég held að flest vilji gott skyggni, þurrt veður (inn og út úr rútu) og fallega birtu. Og nú er ég farin að velta fyrir mér við hvern verði að sakast ef ég þarf upp á hvern dag að vera sjúklega fyndin, bjartsýn og jákvæð - þvert á súldina.

Ég man þegar forseti Íslands „spáði“ því að Katla myndi fylgja gosinu í Eyjafjallajökli eftir og ég held að ýmsir hafi skilið það sem hótun. Í sama dúr ætla ég að kenna nýju lögunum um virðisaukaskatt á gistingu um. Samkvæmt þeim á ekki að hækka verð á gistingu og þannig ætla ég að túlka það að laun leiðsögumanna hækki ekki eins og þarf. Ferðaþjónustan á áfram að vera láglaunastarfsgrein.

Flestir leiðsögumenn eru lausráðnir og vinna hjá ýmsum ferðaþjónustufyrirtækjum. Atvinnuöryggið er sáralítið en samt eru kjarasamningarnir til skammar. Heildarlaun fyrir átta tíma dagvinnu leiðsögumanns sem er hokinn af starfsreynslu eru kr. 12.094,4. Þegar kostnaði launagreiðanda vegna almennra bókakaupa, fatnaðar og orlofs hefur verið bætt við leggur dagurinn sig á 15.436,16 og þá á leiðsögumaðurinn í raun hvorki matartíma né kaffitíma, getur aldrei skroppið til læknis, tannlæknis eða sinnt barni. Leiðsögumaður í ferð er kyrrsettur þar sem hópurinn er hverju sinni. Leiðsögumaður á ofangreindum launum fær ekki eina mínútu frí á kaupi. Hann má strjúka frjálst um höfuð og líta einstaka sinnum af ferðafólkinu en hann á engan tíma fyrir sig meðan hann er í dagsferð.

Ef leiðsögumaður er ráðinn til að fara í bæjarferð kl. 10-14 fær hann greiddar fjórar klukkustundir en vinnur hvergi annars staðar upp í heilan dag. Ef leiðsögumaður ræður sig í vinnu kl. 8-16 fær hann átta dagvinnustundir. Ef leiðsögumaður ræður sig í vinnu kl. 10-18 fær hann átta dagvinnustundir.

Ég er varamaður í kjaranefnd Félags leiðsögumanna og ef mér tekst ekki að snúa olíuskipinu í næstu samningum verða dagar mínir í þessu starfi taldir frá og með næsta vori.

En hvað á leiðsögumaður að rukka sem verktaki?

 

... og karfinn

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég fann þetta: http://is.wikipedia.org/wiki/Rush_Limbaugh. Hann er að vísu útvarpsmaður ...

Berglind Steinsdóttir, 1.7.2013 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband