Laugardagur, 27. júlí 2013
Framtíðarskáldsögur í þýðingu löngu síðar
Þegar ég opna nýja skáldsögu, þ.e. skáldsögu sem ég hef ekki lesið, byrja ég á að skoða hvað hún heitir á frummálinu ef hún er þýdd og hvenær hún kom út. Svo man ég það ekkert endilega stundinni lengur.
Í síðustu viku komst ég í feitt þegar ég rakst á Heimsins besta bæ eftir finnskan höfund. Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð er með skemmtilegri bókum sem ég hef lesið. Og ég er ekki svikin af kirkjusmiðnum og öllu því fólki sem hann sankar að sér, ónei, en mér finnst samt skrýtin lenska að gefa út nýjar þýðingar á 20 ára gömlum bókum án þess að gera einhverja grein fyrir því. Maailman paras kylä virðist hafa komið út árið 1992 sem framtíðarspá. Núna er árið 2013 og 10 ár eftir af framtíðarspánni í bókinni.
Ég man líka eftir umræðu um daginn um gamlar spennusögur vinsælla höfunda sem hafa verið þýddar löngu síðar á íslensku. Ég man ekki hvaða höfundar það eru en þeir eru kannski búnir að skrifa sig upp í einhverja færni, svo er gömul bók þýdd og lesendur standa í þeirri trú að bókin sé ný og taki á samtímaatburðum eins og er jafnvel einkennismerki höfundarins. Það er svolítið eins og útgefendur séu að nota meðbyrinn en án þess að láta mann vita.
Smáatriði? Mér finnst ekki lítið atriði í upplifun á bók að þekkja bakgrunninn aðeins.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.