Við Námaskarð

Ég var við Námaskarð í morgun og stóð á spjalli við annan leiðsögumann þegar maður kom aðvífandi og bað okkur um að hafa umgengnina í huga og biðja bæði aðra leiðsögumenn og túrista að ganga vel um. Hann sagði að pabbi sinn væri einn landeigenda en landeigendur hefðu í heilu lagi dregið sig út úr viðhaldi og almennri umhirðu. Hann sagði að sveitarfélagið sinnti þessu ekki og að eitthvert félag (Náttúrufélag Mývatns?) hefði verið lagt niður og það ólöglega en án nokkurra mótbára. Nú væri hann á sínum þriðja frídegi að tína upp rusl og laga stíga því að honum rynni þetta svo til rifja.

Hann sagði líka að næsta sumar yrðu ruslafötur á svæðinu þótt hann þyrfti að kaupa þær sjálfur.

Já, ég er svolítið hugsi yfir þessu. Sjálfsagt hefur sveitarfélagið engar beinar tekjur af því að fólk komi í Námaskarð. Þar er ekkert til sölu. Hins vegar kaupir fólk eitthvað í sveitarfélaginu af því að það á leið um það og dvelur í lengri eða skemmri tíma.

Hverjum ber helst skylda til að koma upp tunnum - og tæma þær síðan?

Ég fór nefnilega líka að hugsa um hvort það yrði ekki bjarnargreiði að koma með tunnu - ef hún síðan fylltist og enginn tæmdi hana. Þar sem fólk sér tunnur á það til að henda uppsöfnuðu rusli úr bílunum sínum og það þótt þær séu orðnar fullar, þá sjálfsagt í þeirri trú að það sé bara tímaspursmál hvenær þær verði tæmdar.

En ef við stefnum á milljón ferðamenn er þetta - og bannsett klósettin - meðal þess sem þarf að taka föstum tökum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband