Útgáfuferill Jacks Reachers (Lees Childs (Jims Grants))

Hérlendis virðist til siðs að þýða metsölubækur sem hafa slegið í gegn í útlöndum. Þá gildir einu þótt þær séu fjórða, fimmta eða sjötta bókin í seríu um einhverja manneskju. Ef hún gengur líka vel hér er haldið áfram og loks er fyrsta bókin þýdd, bókin þar sem söguhetjan er kynnt til sögunnar á einhvern hátt.

Nú er ég með Rutt úr vegi (Killing Floor) í höndunum. Hetjan er Jack Reacher sem hefur farið sigurför um heiminn og gott ef ekki lagt hann flatan að fótum sér. Hún er nýþýdd og á baksíðu kápu stendur að hún sé sjötta bókin um Jack Reacher sem kemur út á íslensku. Þegar ég skoðaði bókarupplýsingarnar sá ég að hún kom út á ensku 1997, fyrir 16 árum. Þá fletti ég höfundinum upp á Wikipediu og komst að því að þessi bók er sú fyrsta sem skrifuð var um Jack Reacher. Engu að síður er látið að því liggja í íslensku útgáfunni að hún sé það alls ekki.

Þótt bækurnar séu sjálfsagt sjálfstæðar og komi ekki að sök að lesa þær í alls konar röðum sakar samt varla að lesa fyrst fyrstu bókina af næstum 20.

Ég man ekki hjá hvaða erlendu spennusagnahöfundum ég hef áður orðið vör við þetta en krimmar eiga það til að vísa í samtíma sinn þannig að það er skemmtilegra að vita að sögusviðið er næstum 20 ára gamalt.

Og held ég nú áfram að lesa um hina 36 ára gömlu fyrrverandi löggu, Jack Reacher, sem í dag er 52 enda stendur skýrt og greinilega innan á kápu að hann sé fæddur 29. október 1960. Hann er þannig upp á dag sex árum yngri en höfundur sinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Lýst betur á að lesa bók eftir Jim Grant.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 26.8.2013 kl. 10:36

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Og heimildarmenn mínir herma að við eigum hartnær 20 góðar bækur ólesnar.

Berglind Steinsdóttir, 26.8.2013 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband