Miðvikudagur, 18. september 2013
Kynjað sund?
Ég er alveg ágætlega nýjungagjörn og vil ekki hafa hlutina eins og þeir eru af þeirri einu ástæðu að þeir hafi alltaf verið eins og þeir eru. Ég sver það. Í vinnunni minni hef ég m.a.s. lagt til ný vinnubrögð sem gætu falið í sér að ég missti vinnuna af því að mér finnst að við eigum stöðugt að velta við steinum og hagræða.
Nú berast þær hugmyndir úr heita potti Ráðhússins að sniðugt gæti verið að hafa sérstaka kvennadaga í sundi. Ég ætla hér með að taka mér það bessaleyfi að hafna þeirri nýjung. Ég hleyp ekki í kynbundnu hlaupi og ég vil ekki fara í kynbundna laug. Til vara verður hún að vera utan seilingar minnar, þessi kvennalaug, en alls ekki á þeim slóðum þar sem ég stunda sund.
Hver er ekki sammála minni upplýstu og ígrunduðu skoðun á málinu? Enginn. Enginn er ekki sammála vegna þess að allir hljóta að vera sammála mér um fjölbreytileikann. Ástæðan fyrir því að það voru kvenna- og karladagar í gufunni (og eru kannski enn sums staðar) var að fólk mátti vera nakið. Eða var það ekki?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.