Laugardagur, 24. febrúar 2007
Skólagjöld?
Skólaganga á að verða greidd með sköttum. Það finnst mér í aðalatriðum.
Hins vegar er ég farin að hneigjast til þess að hófleg skólagjöld fyrir framhaldsháskólanám væru í lagi, einkum þegar þau eru ávísun á vel launað starf. Auðvitað er ekkert öryggi í námskránni samt, ég geri mér grein fyrir því.
Ég er búin að vera að velta þessu fyrir mér, og er enn. Sjálf er ég fordekruð og þakka skattgreiðendum fyrir að borga brúsann. Ég var í leikskóla, grunnskóla, menntaskóla og háskóla, allt fyrir lágmarksþóknun. Ég tók meirapróf þegar ég var 19 ára (fékk skírteinið á tvítugsafmælinu) og mér skilst að ég hafi borgað fyrir það nám sjálf. Ég fór í Leiðsöguskóla Íslands og veit ekki betur en að ég hafi borgað tvo þriðju af kostnaðinum við að mennta mig. Þegar ég hef farið á tölvunámskeið hef ég borgað úr eigin vasa.
Er ekki einhver ósamkvæmni í þessu? Það er það sem ég er að hugsa núna. Leikskólinn er fyrsta skólastigið, menn hafa haft fögur orð um að gjaldfrelsa hann en víðast hefur ekki orðið af því (þó á Súðavík ef mig misminnir ekki). Einkaháskólarnir taka skólagjöld (180-250 þúsund finnst mér ég hafa heyrt) en fá líka úr sarpinum.
Kenning mín er núna sú að ef maður borgar gjöld fyrir námið sitt geri maður meiri kröfur bæði til sjálfs sín og kennara sinna. En þá verður maður líka skýlaust að eiga rétt á lánum fyrir námsgjöldunum - og námið verður að vera metið til launa þegar maður ræður sig starfa þar sem menntunin nýtist.
Núna var ég að hugsa upphátt ... Háskóli Íslands var með útskrift í dag og rektor er með háleitar hugmyndir um að koma HÍ á lista yfir 100 bestu skólana. Gera allir nemendur og kennarar raunhæfar kröfur til sjálfra sín - og standa undir þeim líka?
Við megum ekki vera hrædd við að ræða opinskátt um væntingar okkar í þessum málum og leiðir til að uppfylla þær.
Athugasemdir
Hmmm. Nei, ég er ekki viss um að ég sé sammála þér hérna Berglind. Ef við höfum skólagjöld í framhaldsskólanum þýðir það að foreldrarnir borga fyrir það - og sumir foreldrar hafa hreinlega ekki þannig pening. Og jújú, námslán eru ágæt en þau þarf að borga til baka. Og það er ekki alltaf auðvelt.
Leggur maður harðar að sér ef maður þarf að borga skólagjöld? Kannski á það við um þá krakka sem búa heima hjá mömmu og pabba á meðan þeir eru í skóla, en ekki hina. Þegar ég var í HÍ var ég á fullum námslánum því ég varð að sjá fyrir mér sjálf. Háskólinn á Akureyri var rétt að byrja og bauð ekki upp á neitt sem ég vildi læra. Svo ég varð að flytja suður, leigja húsnæði, borga minn eigin mat, o.s.frv. Ég varð að læra vel og tryggja góðar einkunir til þess að geta haldið námslánunum því ef ég félli í einhverju þyrfti ég að borga lánin til baka. Þannig að flestir krakkarnir utan af landi lögðu mikið á sig enda vorum við að kosta miklu til sjálf. Þannig að ef ég hefði þurft að borga námslán ofan á þetta allt saman hefði ég einfaldlega komið út úr skólanum með mun hærri námslán á bakinu en ekkert betri menntun. Og ég bendi á að ég tók námslán fyrir um það bil tvær milljónir. Það er skuld sem ég hef á bakinu í dag og hún hefur lítið lækkað þótt ég hafi greitt af henni í sjö ár (fékk frestun þegar ég fór aftur í nám).
Frí menntun er eitt það besta við íslenskt þjóðfélag. Það að allir skuli eiga rétt á menntun, hvort sem foreldrar þeirra eru ríkir eða ekki.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 25.2.2007 kl. 00:06
Hmm, ég er ekki viss um að þú sért ósammála mér, Stína. Ég er náttúrlega að velta þessu fyrir mér af því að ég upplifi MA-námið mjög óagað. Ég talaði um framhaldsHÁskólanám en ert þú ekki að tala um menntaskólann? Ég er alls ekki komin á þá skoðun að það eigi að borga skólagjöld á menntaskólastigi. Ég er ekki síst að tala um stjórnunarnám eins og MBA. Kannski er ég farin að draga þá fullmikið í dilka, og ég verð að velta því öllu fyrir mér.
Þegar ég hef verðlagt prófarkalestur minn hef ég oft verið hvött til að verðleggja mig hærra en ég geri vegna þess að fólk meti vinnuna meira og finnist maður standa sig betur ef það þarf að borga meira - þótt vinnan sé nákvæmlega eins unnin. Peningar tala. Ef við viljum ekki hlusta á þá í þessu markaðssamfélagi verðum við þá ekki að reyna að breyta því?
Að lokum, ég sá viðtal við Jóhönnu Barðdal í blaði í gær þar sem hún var að segja frá langtímastyrkta verkefninu í málvísindum. Þið eruð nú meiri naglarnir, gömlu skólasysturnar mínar.
Berglind Steinsdóttir, 25.2.2007 kl. 09:34
Ah, ég skil. Jú, ég hélt þú værir að tala um framhaldsskóla nám. En ég skil núna hvað þú átt við. Hjá mér er staðan reyndar þannig að ég þarf ekki að borga skólagjöld í UBC vegna þess að þeir meta framhaldsháskólanámið (það sem kallast graduate studies) þannig að það sé svo mikilvægt og þar af leiðandi mikilvægt að fá fólk í það, að ef maður er í doktorsnámi þá fær maður styrk til þess að borga skólagjöldin. Ég borga sem sagt engin skólagjöld núna (verð reyndar að gera það í haust ef ég klára ekki fyrr - sem ég mun ekki gera). Það eru reyndar bara tveir skólar sem gera þetta en líklegt að aðrir fylgi á eftir.
En jú, ég skil núna hvað þú meinar. Veistu samt, gallinn er að menntunin skiptir ekki öllu heldur í hvaða fagi. Þegar ég kláraði masterinn á sínum tíma fékk ég ekki nema um 100 þúsund krónur á mánuði fyrir að vinna fyrir ríkið (á háskólastofnun). Á sama tíma var stelpa sem ég þekkti og sem kláraði master í hagfræði með 200 þúsund krónur. Hún vann í ríkisreknum banka og þar af leiðandi vann hún tæknilega fyrir sama vinnuveitanda og ég. Henni fannst þetta eðlilegur munur af því að hún var að VINNA MEÐ PENINGA. Jafnvel þegar ég verð komin með doktorspróf mun ég ekki fá nema brot af þeim launum sem með þolanlega menntun á þokkalegum stað í bankakerfinu. Þannig að samkvæmt því væri ekki sanngjarnt ef málfræðingur og hagfræðingur, t.d. borguðu sömu skólagjöld. Æi, best ég hætti þessu. Ég verð svo æst þegar ég hugsa um svona hluti.
En jú, Jóhanna stendur sig vel og fékk flottan styrk. Gott hjá henni. Ég held líka að henni líði vel í Bergen svo það er gott að hún fær að vera þar áfram.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 25.2.2007 kl. 18:30
Það sem ég skil ekki er að hagfræðingar og viðskiptafræðingar fái há laun. Og alls ekki svona margir. Og þaðan af síður skil ég af hverju enn hærra settir spekúlantar í bönkunum fá svo há laun að okkur hin setur endalaust hljóð. Ég þori ekki að halda áfram að skrifa um þetta.
Berglind Steinsdóttir, 25.2.2007 kl. 19:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.