Fimmtudagur, 3. október 2013
Hjólastígar á Suðurlandi
Mesti hugmyndasmiður sem ég heyri í á opinberum vettvangi er Andri Snær Magnason. Í gær var ég svo heppin að fá 20 mínútna skammt af hugmyndaauðgi hans á ferðamálaþingi. Hann varpaði fram spurningum og hugmyndum um fiska og náttúrufræði, af hverju við værum ekki vitlaus í fiska, t.d. börn sem hefðu aðgengi að öllum þeim fjölbreytilegu fisktegundum sem synda í hafinu í kringum Ísland. Flugleiðavélarnar eru skreyttar með fossum (er það ekki annars?) - en hvað ef þær væru skreyttar með furðufiskum? Ótrúlega margir Íslendingar - sem teljast fiskveiðiþjóð - hafa aldrei séð fisk nema flakaðan í borði fisksalans, jafnvel bara á diskinum í bleikri sósu. Á sjómannadaginn er alls kyns fiskur sýndur í fiskikörum á bryggjunni og það mælist alltaf vel fyrir. Af hverju er þetta ekki algengara hjá fiskveiðiþjóð?
Þetta var athyglisverð hugmynd.
Svo lagði hann út af Sigurði Fáfnisbana sem drap Fáfni, steikti úr honum hjartað, át og skildi þá tal fugla. Fornsögurnar eru hér ekki notaðar sem aðdráttarafl á útlendinga, arfinum er gert lágt undir höfði, margir ráðamenn tala þessa fornu menningu niður og gera á allan hátt lítið úr þessari sérstöðu okkar. Spildan sem Hús íslenskra fræða átti að rísa á er núna hálfgert ginnungagap og handritin á vergangi. Mig minnir að Andri hafi sagt að í Dublin væri stytta/líkneski/hurð (hann sýndi mynd) af Sigurði að steikja hjartað og það væri eitt helsta aðdráttaraflið í þeirri borg. En hér? Veit einhver hvar Sigurður Fáfnisbani heldur til?
En það sem höfðaði samt mest til mín var hugmyndin um láglendishjólastíg eftir Suðurlandinu. Andri sagði að Ísland væri flatara en Holland. Já, þar sem byggðin er. Væri ekki dásamlegt að geta hjólað eftir Suðurlandinu endilöngu, jafnvel með alla fjölskylduna, Íslendingar jafnt og útlendingar, 20, 30 eða 50 kílómetra eftir atvikum, stoppað í Hveragerði, við Þingborg, á Hellu, við Seljalandsfoss, séð Vestmannaeyjar nálgast og fjarlægjast, talað um jöklana sem voru hrikalegt farg á landinu og hopuðu svo - koma þeir aftur? - rifjað upp Önnu frá Stóruborg, fengið sér ís, litið inn í kaffi, spókað sig á jökulsporði, gist í hlöðu, fengið sér pítsu á Systrakaffi, gengið upp að Systravatni, rakið ættir sínar til síra Jóns Steingrímssonar eldklerks, gengið á Kirkjugólfi, mátað sig við Dverghamra, gáð upp í Fjaðrárgljúfur, horft lengi á Skaftárhraun, virt fyrir sér nýju brúna yfir Múlakvísl, sagt þjóðsögur, sopið hveljur yfir Jökulsárlóni, leitað að sel - já, eða rostungi - fundið humarilm á Höfn --- á hægferð?
Á hægferð.
Hægferð er lykilorðið.
Enginn bannar fólki að keyra en okkur er eiginlega bannað að hjóla um landið.
Athugasemdir
Takk fyrir þetta Berglind. Tölum síðan aðeins um aðkomuleiðir - bæði hjólandi og akandi - að hálendinu og náttúruperlunum austan Þjórsár - á láglendi jafnt sem hálendi. Suðurstrandarvegurinn margrómaði tengir bara Árnessýslu/Selfoss við Keflavík/Grindavík. Meðan ekki er brúað nærri Þjórsárósi, verða Rangárþing ótengd og viðskiptum gesta Rangæinga áfram beint á Selfoss. Það er fullkomlega óeðlilegt að umferð í Landmannalaugar, á N-Fjallabaksleið, að Heklu eða um Sprengisandsleið o.s.frv. eigi ekki greiða leið nema um Þjórsárdal og yfir brú hjá Sultartanga.
Með núverandi vegaskipulagi er umferðinni þjappað á ofsetin svæði. Rangárþing eru svipt eðlilegu flæði ferðamanna og þar með eru tækifæri til viðskipta við þá lögð við fætur annarra. Það vantar bara að brúa Þjórsá yfir á malbikið vestan við Þykkvabæ og það vantar bundið slitlag á vegarkaflann frá Galtalæk að Sultartanga. Með því fást líka ótal möguleikar á léttum og áhugaverðum hjólaleiðum.
Þorkell Guðnason, 3.10.2013 kl. 20:54
Já, er ekki ótrúlega víða sem vantar bara herslumuninn? Hluti af þessu ferðamálaþingi í gær var að fara með heimamanni um Selfoss (sem maður keyrir allajafna bara í gegnum). Heimamaðurinn, Kjartan Björnsson sveitarstjórnarmaður, hafði mörg orð um nýju brúna og veginn sem á að leggja og var á því að nær væri að brúa þar sem styttra er en til stendur, þ.e. hann vill brúa sunnar. Fara menn ekki óþarflega oft fjallabak án þess að fara Fjallabak?
En viljum við nokkuð malbika Kjöl? (Ég veit að þú ert ekki að tala um hann.)
Berglind Steinsdóttir, 3.10.2013 kl. 23:43
Suðurstrandarvegur býður upp á beinni samskipti suðurlands við útlönd, án Reykjavíkur króksins og jafnvel beintengingu Keflavíkur við hálendisferðir norður og suður.
stefan benediktsson (IP-tala skráð) 4.10.2013 kl. 00:14
... sem minnir mig einmitt á það sem Andri sagði um Reykjavíkurflugvöll. Við viljum bæði að hann fari ...
Berglind Steinsdóttir, 4.10.2013 kl. 12:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.