36.500 á mánuði - fullt fæði innifalið?

Ég held að meint legugjald í fjárlagafrumvarpinu upp á 1.200 kr. á sólarhring sé smjörklípa, hugsað til að afvegaleiða umræðuna. Og ég geng með opin augun í gildruna.

Þessi upphæð er svo langt frá því að borga fyrir veitta þjónustu - enda greiðum við hana með sköttunum meðan við erum frísk og þurfum ekki á spítalavist að halda.

Það kostar að innheimta þessa lágu upphæð - á þetta að heita atvinnuskapandi?

Sumt fólk munar samt um þessa upphæð, kannski einmitt það fólk sem á helst erindi á spítala. Kannski, ég veit það ekki.

Ég held að öll stjórnvöld geri þetta, tefli fram einhverri fáránlegri hugmynd sem veldur usla til þess eins að geta dregið hana til baka og klappað sér á bakið. Nema nú blaðrar internetið öllu þannig að ég held að stjórnvöld komist bráðum ekki lengur upp með þetta.

Næsta mál, takk. Ef ég ætti að forgangsraða myndi ég leggja allt kapp á að greiða niður vaxtaberandi skuldir. Til þess þarf að afla tekna. Hvar eru matarholurnar? Hvar má spara? Mér er ferðaþjónustan hugleikin og ég held að þar séu veruleg sóknarfæri. Einn liður í því væri að stýra fólki út á land og einn liður í því væri að hafa innanlandsflugið á sama stað og millilandaflugið. Annar liður væri að bæta samgöngur. Það kostar auðvitað. Enn einn liður væri að efla afþreyingarstigið og bæta í í menningarmálum frekar en að draga úr. Iceland Airwaves sogar fólk til landsins. Sagan gæti stutt við náttúruna. „Vonda veðrið“ er ekki sem verst. Norðurljósin eru komin á kortið. Maturinn er kominn á kortið. Helmingur ferðamanna kemur í júní, júlí og ágúst en helmingur kemur hina níu mánuðina. Á þeim tíma er ótrúlega víða lokað. Öö, já, LOKAÐ. Þá er ekki hægt að kaupa kaffi, kjúkling eða krumpudýr nema mjög óvíða. Já, það er erfitt að hafa marga staði opna lengi á rólegum tíma en það er verkefni að finna út úr því. Er það kannski ekki hægt? Mætti nota staðarnet til að upplýsa? Gestastofur? Einkaframtakið? Hvað með sútarann á Sauðárkróki? Er þar ekki leðurvinnsla og búð og tekið á móti fólki sem kemur? Starfsfólkið hefur samt eitthvað arðbært fyrir stafni þann tíma sem færri gestir eru á ferli. Mínir túristar vilja sjá spriklandi fisk á bryggjunni og kýrnar mjólkaðar. Er ekki hægt að flétta heimsóknir sem greitt er fyrir inn í atvinnuvegina?

Ég held að lausnirnar séu úti um allt ef við viljum sjá þær. Og vissulega væri þarft skref að lögleiða starfsheiti leiðsögumanna til að stugga við sjóræningjunum sem er skítsama um mosann og stofuglugga forsetans og vita ekkert annað en það sem þeir muna úr fyrstu hringferðinni sinni með leiðsögumanni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband