Sunnudagur, 13. október 2013
Hross koma á óvart
Af einhvers konar skyldurækni fór ég að sjá Hross í oss í Háskólabíói. Hestar, fátt sagt, engin saga eða lítil, já, eiginlega hélt ég jafnvel að þetta yrði langdregið hrossablæti.
Nei, mér var komið þægilega á óvart. Að sönnu er söguþráðurinn slitróttur og skilur nóg eftir fyrir ímyndunaraflið. Það hentar ekki öllum bíóförum eins og ég komst að raun um þegar ég leitaði að dómum um myndina eftir á. En hún spilaði á minn tilfinningaskala og nóg var hlegið í bíóhúsinu til að sannfæra mig um að fólki var meðfram alveg skemmt.
Ingvar E. Sigurðsson leikur mann sem er ástfanginn af merinni sinni. Þótt hann láti ekki líffræðilega reyna á er hann samt líffræðilega miður sín þegar merin reynist kunna að meta graðhest. Hvort er þá dýrið mennskra eða maðurinn dýrslegri?
Drykkjuskapur, þrálát forvitni um alla hina og nágrannakrytur setja sterkan svip á myndina. Helgi Björns, Kjartan Ragnars og Ingvar sýna allir á sér nýja leikhlið og Steinn Ármann brillerar fyrir allan peninginn í sjósundinu sínu. Rússarnir tala rússnesku, Spánverjinn (eða Brasilíubúinn eða eitthvað) og Svíinn tala öll sitt tungumál og það er ekki þýtt enda auðheyrt að merkingin er ekki í textanum heldur látbragðinu og myndmálinu.
Það eina sem ég finn að (fyrir utan eina of súrrealíska senu í seinni hlutanum) er nafnið. Á ensku heitir hún Of Horses and Men og mér finnst það eins mikið of einfalt og mér finnst Hross í oss ljótt, bara hljóðrænt ljótt. Ég held að ég skilji að meiningin sé að tiltölulega stutt sé á milli hrossa og fólks en kannski er ég ekki sérlega trúuð á það. En aðallega er titillinn ljótur að mínu mati. Og þá er hann ljótur ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.