Fimmtudagur, 17. október 2013
Fugl á víðavangi
Fjölbreytilegasta dýralíf á Íslandi hlýtur að vera fuglalífið. Getur verið að ég hafi tekið rétt eftir á fræðslufundi í kvöld að tæplega 80 tegundir verpi á Íslandi? Ég á fuglavísinn þannig að sjálfsagt gæti ég talið.
Fulltrúar frá Fuglavernd hittu okkur í gönguklúbbnum Veseni og vergangi og sögðu okkur sitt lítið af hverju um þá fugla sem við gætum hnotið um á gönguferðum. Guðsblessunarlega vissi ég sumt en ég var búin að gleyma að himbrimi synti um með ungana á bakinu en lómurinn ekki. Við megum ekkert vita um snæuglu, t.d. hvar hún heldur sig, af því að hún er í útrýmingarhættu. Við viljum ekki annað geirfuglsslys. Branduglunni hefur fjölgað í réttu hlutfalli við meiri lúpínu. Hún var áður flokkuð sem ránfugl en ekki lengur. Haftyrðillinn er hverfandi en er þó finnanlegur í grennd við Sauðárkrók.
Félagið Fuglavernd var stofnað til að vernda haförninn og nú er stofninn kominn upp í um 70 pör.
Þetta og langtum langtum langtum meira ætti maður að hafa á hraðbergi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.