Mánudagur, 21. október 2013
Að hrauna eða ekki
Enn á ný er umræðan hjá okkur full af tilfinningum, nú um vegarlagningu í hrauni í Garðabæ. Einhvern veginn veit ég ekki alveg hvort hraunið heitir Gálgahraun eða Garðahraun. Ég hef ekki tekist það á hendur að fara og skoða, meta og gera upp hug minn. En hefur einhver spurt til hvers vegurinn er? Ég er nefnilega ekki sannfærð um að hann sé til bóta. Það heyrði ég meðal annars Friðjón Friðjónsson segja í útvarpinu fyrir einhverjum dögum. Hann er íbúi á þessum slóðum og aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar þannig að ekki eru þetta kýrskýrar pólitískar línur.
Og mér er fyrirmunað - stútfull af tilfinningum - að skilja hvernig hægt er að senda fjöldann allan af lögreglumönnum til að bera burtu fólk sem vill bíða niðurstöðu Hæstaréttar á sama tíma og mörg önnur brýn verkefni bíða lögreglunnar. Fréttamyndirnar komu út á mér tárunum.
Örvar Már Kristinsson, leiðsögumaður og íbúi Hafnarfjarðar, átti leið þarna um í dag og skrifaði þetta á Facebook áðan:
Á sama tíma og maður sér varla lögreglumenn að störfum við eftirlit með umferð við grunnskóla bæjarins, við vegaeftirlit á þjóðvegum og hverfisstöðvum er lokað vegna niðurskurðar og manneklu þá eiga þeir mannskap í svona gæluverkefni. Ég taldi minnst 20 lögreglumenn, 6 bíla og fjögur mótórhjól um hádegisbilið við Gálgahraun.
Með fylgja myndir. Ég hef samúð með lögreglumönnunum sem þurfa að hlíta fyrirmælum yfirmanna lögreglunnar. HVER ákveður svona nokkuð? Það er eitthvert nafn, einhver maður, einhver einstaklingur, einhver yfirmaður sem tekur af skarið. Hver? Og það þegar mannekla þjakar lögregluna?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.