Helgi Hrafn og Bubbi; Björk og Brynjar

Guðisélof fyrir netið, ég hefði ógjarnan viljað missa af Sunnudagsmorgni gærdagsins. Ég er forfallinn áhugamaður um spjallþætti ef í þeim er pólitískt ívaf (þarf ekki að vera flokkspólitískt) og þátturinn í gær var uppfullur af skoðunum. Gerður Kristný, Hugleikur og Ragna voru öll ágæt til að byrja með þótt ég hefði langmest gaman af Hugleiki. Ég veit ekkert hvort hann var einlægur en hann virtist vera það þegar hann spurði af hverju pólitík - sem væri það mikilvægasta í heiminum - væri svona leiðinleg og þegar hann sagðist síðan hafa þurft að gúggla KSÍ. Ég hló mér til óbóta.

Ég er enn ekki komin til neins botns í sambandi við stóra niðurhalsstuldsmálið, veit þó að mér finnst eðlilegt að tónlistarmenn, málarar og aðrir skapandi menn fái laun fyrir að gleðja mig en samt vil ég ekki gerræðið og stóra bróður á öxlina. Annar í þeim kafla heillaði mig upp úr skónum fyrir málefnalega nálgun, kurteisi og rökvísi.

Hispurs- og teprulaust tal um vændi hélt mér líka fanginni. Bæði Brynjar og Björk höfðu skoðanir - og ég gef mikið fyrir það almennt séð - en hvaða skoðanir hafa þau sem stunda vændi? Og hvort þessara tveggja ætli þekki betur til? En það þarf ekki að eiga í hörðum skoðanaskiptum með hundshaus og í fýlu og þeim tókst báðum að slá á létta strengi. Ég veit alveg hvort mér fannst marktækara en held auðvitað áfram að fylgjast með og skipti um skoðun ef ástæða er til.

Grímur, Sóley og Unnsteinn tóku svo Airwaves í lokin sem von er í lokin á Airwaves-helgi. Mikil snilld er sú hátíð þótt ég hafi látið hana fara framhjá mér í heilu lagi. Ég nýt góðs af því að aðrir gleðjist þar.

Eini alvörugallinn á þessum þætti var að GM talaði of hátt. Einhver hlýtur samt að segja honum fljótlega til hvers míkrófónninn er. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband