Fimmtudagur, 21. nóvember 2013
Viðsemjandi minn, Samtök atvinnulífsins
Nú er ég spennt. Samtök atvinnulífsins auglýsa, kannski smátúlkað, að allt umfram 2% launahækkun hleypi af stað verðbólgu og taki launahækkunina strax til baka; stöðugleikinn og kaupmáttur - ha? - verði aðeins tryggður með hóflegum launakröfum.
Auðvitað vil ég alls ekki verða persónuleg þannig að ég ætla að taka dæmi af öðrum leiðsögumanni en mér. Sá leiðsögumaður vinnur 173,33 dagvinnutíma í mánuði og fær brúttó fyrir 262.000 - æ, fyrirgefið, 334.000 með orlofi, útlögðum kostnaði vegna fata- og bókakaupa (endurnýjunar er þörf á skóm, úlpum, kannski kortum og áttavitum), orlofsuppbót, desemberuppbót og veikindadögum. Kostnaðarliðirnir eru m.a.s. skattlagðir sem hlýtur að vera einhvers konar sniðganga við skattalög.
Leiðsögumaðurinn í sýnidæminu er heppinn, fær vinnu alla dagana í janúar, veit m.a.s. 5. janúar að hann fer í Borgarfjörðinn 25. janúar, getur spókað sig á sandölum í 20°C, þarf aldrei að gera sér aukaferð (launalausa í greiðaskyni) á ferðaskrifstofuna til að sækja gögn, systkini hans fara í foreldraviðtölin vegna barnanna og ferðirnar byrja alltaf á sama staðnum og á sama tíma.
Þegar búið er að reikna skattinn og launatengd gjöld frá fær hann u.þ.b. 245.000 útborgað. Nú, hva, hann á íbúðina skuldlausa þannig að hann þarf bara að borga mat, rafmagn, hita og kostnað vegna barnanna og á 100.000 krónur afgangs eftir mánuðinn sem hann getur lagt fyrir til að gera eitthvað með börnunum næsta sumar. Það er alveg hellingur sem hægt er að gera fyrir 100.000 krónur því að kaupmátturinn er svo mikill vegna stöðugleikans - eins og við vitum.
Það er verst að í febrúar er hann ekki svona heppinn. Þá verður eldgos sem skelfir hópana sem hann átti að taka á móti og hann vinnur bara 10 daga þótt hann sé búinn að gera allar sömu ráðstafanir nema núna ætlar pabbi hans að hlaupa í skarðið þegar börnunum liggur mikið á. Bömmer, þvottavélin bilar og hann þarf að láta gera við hana. Honum er illt í einni tönninni en hann er svo heppinn að vera í launalausu fríi og geta farið með 15.000 á greiðslukortinu til tannlæknisins síns. Útborguð laun verða 122.000 og hann þarf að taka af því sem hann lagði til hliðar í janúar.
Ég þekki engan leiðsögumann sem vinnur 8 tíma á dag í 21,7 daga í mánuði, frekar en endilega í öðrum stéttum. Dagsferðirnar eru oft 10 tímar, allt upp í 16 tíma á einum og sama deginum í hvataferðunum. Þetta er hálfgerð tarnavinna sem sumum hentar ugglaust mjög vel en er dálítið óheppileg fyrir fjölskyldufólk. Ókei, þá er kannski bara fínt að fólk sem á engin eða uppkomin börn sinni leiðsögn. Er það rökrétt? Smækkar það ekki tæknilega fullmikið úrvalið og er álíka rökrétt og að aðeins morgunhanar mæti í vinnu fyrir klukkan níu á morgnana?
Ég virðist kannski komin út fyrir efnið en man þó enn hvað ég var að hugsa þegar ég byrjaði að skrifa áðan. Fólkið í framvarðarsveit Samtaka atvinnulífsins er færra en mannmörgu stéttirnar í Starfsgreinasambandinu, hjúkrunarstéttirnar, kennarar og meira að segja í Félagi leiðsögumanna, en það hefur fín laun út af ábyrgð, löngum vinnudögum og fjarvistum frá heimili og fjölskyldu - en býr hvorki við kröpp kjör né óvissu um atvinnuástandið á morgun eða í næsta mánuði. Það þarf ekki einu sinni að kaupa pennana, skrifblokkirnar eða snjallsímana sína sjálft. Er ég að ýkja eitthvað?
Ykkur að segja trúi ég ekki stöku orði úr þessari auglýsingu. Og þar að auki koma laun leiðsögumanna að utan. Vegna okkar kemur meiri gjaldeyrir inn í landið. Átta Samtök atvinnulífsins sig ekki á þessu?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.