Leiðsögumenn kosta

Ég var að leita að viðtali við sjálfa mig og fann í leiðinni grein eftir mig sem birtist í Mogganum 2005. Það er sárt að horfast í augu við það að kjör leiðsögumanna hafa ekki skánað hætishót. Ætli það verði aldrei nóg að beita rökum og málefnalegum skrifum? Þarf verklegar aðgerðir?
 
Leiðsögumenn í lausagangi
FÖSTUDAGINN 8. júlí birti Morgunblaðið grein eftir mig um kjör leiðsögumanna. Ég var ranglega titluð formaður Félags leiðsögumanna en að öðru leyti var allt rétt sem þar kom fram.

Laust fyrir hádegi sama dag var hringt í mig frá ferðaskrifstofu sem hafði bókað mig í dagsferð sunnudaginn 10. júlí og mér sagt að ekki yrði þörf fyrir mig. Frómt frá sagt hentaði það prýðilega og ég sagði glaðlega: Er ég í fríi á sunnudaginn? Já, sagði stúlkan, og bætti svo við að hugsanlega þyrftu þau mig ekki heldur þann 4. ágúst. „"Við verðum bara að sjá til.“

Gefum okkur að uppsögnin stafi ekki af því að ég hef sagt skoðun mína á kjörum leiðsögumanna. Þá útskýrir þetta dæmi prýðilega atvinnuóöryggi leiðsögumanna. Á vorin eru leiðsögumenn nefnilega beðnir um að skrá sig í ferðir sem þeir vilja fara í, dagsferðir eða lengri ferðir. Í byrjun sumars eru þær meira og minna staðfestar og svo gerist það iðulega að þeim er sagt upp þegar líður nær brottfarardegi. Segi ferðaskrifstofan langferð upp með fimm daga fyrirvara er hún laus allra mála, ef styttra er í brottför þarf hún að borga leiðsögumanninum laun eða útvega honum aðra ferð.

Þegar um dagsferðir er að ræða nægir að segja leiðsögumanni upp hverri ferð með 20 tíma fyrirvara. Þannig getur launasumarið farið í súginn ef bókanir eru minni en áætlað er. Maður gæti ætlað að þessu öryggisleysi og dauðum tíma væri mætt með hærri launum en eins og lesendur fyrri greinarinnar og allir leiðsögumenn vita er sú ekki raunin.

Í viðleitni til þess að hefja umræðuna upp fyrir persónu mína vil ég taka fram að leiðsögumenn með langtum meiri reynslu en ég sitja líka við þetta sama borð. Sumir sátu áður við þetta borð en eru staðnir upp frá því - þegjandi og hljóðlaust hafa þeir horfið úr stéttinni vegna þess að þeir hafa, sumir hverjir, uppgötvað það eftir dygga þjónustu að þeir eiga engan rétt. Við erum öll meira og minna í lausagangi. Leiðsögumaðurinn er eins og bíll í hlutlausum alla háönnina og það ræðst af bókunum og e.t.v. geðþótta ferðarekenda hvort hann er settur í gír og honum ekið eða drepið á vélinni. Og mig undrar ef leiðsögumenn láta bjóða sér það öllu lengur.

Ég get nefnt dæmi um leiðsögumann sem starfaði hjá sama ferðaþjónustufyrirtækinu í tæp 20 sumur, tók svo rútupróf og starfaði í nokkur ár við ökuleiðsögn. Hann var heppinn og veiktist aldrei en svo slasaðist ungur sonur hans og lá í nokkra daga á gjörgæsludeild. Viðbrögð vinnuveitandans voru þau að greiða honum einn og hálfan dag í lok þeirrar ferðar sem hann varð að fara úr en síðan ekki söguna meir.

Öryggisleysið var algjört og hann ákvað að hverfa úr stéttinni, orðalaust.

Ég er svo heppin að vera í öðru starfi, gríðarlega skemmtilegu og gefandi starfi þar sem ég nýt menntunar minnar. Ég hef bara verið við leiðsögn í fríunum mínum og fundist það líka mjög skemmtilegt. Þeir sem hafa unað sér á vertíðum ættu að geta skilið þegar ég segi að tilfinningin hefur stundum verið eins og maður sé að bjarga verðmætum, svo gegndarlaus er ágangurinn í þjónustu leiðsögumanna á álagstímum. Það er dásamlegt að hitta forvitna útlendinga sem verða agndofa yfir náttúru landsins, sögu þess og þrautseigju Íslendinga, svara spurningum og leggja til samhengi hlutanna. Það er líka ögrandi að lenda í vandræðum með útbúnað, t.d. rútuna sjálfa, takast á við þau og hafa betur, gaman þegar manni tekst að sætta gestina við að hótelglugginn snúi út að bílastæðinu en ekki fjallinu. Allir leiðsögumenn hljóta að þekkja vellíðunina sem fylgir því að ná árangri þegar vel tekst að finna lausnir. En oftast reynir ekki á þann þáttinn, oftast nær finnst mér fólk staðráðið í að eiga ánægjulegan tíma í fríinu sínu.

Og það er gaman að taka þátt í því.

Þess vegna er leiðinlegt að hverfa úr starfi sem í eðli sínu er svo skemmtilegt og gefandi. Og það er sorglegt fyrir ferðaþjónustuna þegar hæft fólk dregur sig þegjandi í hlé. Er ekki tímabært að breyta ástandinu?

Höfundur var formaður Félags leiðsögumanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband