Sunnudagur, 24. nóvember 2013
Sveinsstykki Arnars Jónssonar
Það var með hálfum huga sem ég fór á Sveinsstykkið í Þjóðleikhúsinu. Fyrst aðalgagnrýnin: Hljómburðurinn var ekki nógu góður, ég heyrði ekki alveg allt og mamma mín sem er aðeins farin að tapa heyrn missti af ansi miklu. Eins manns sýning á stóra sviðinu þar sem hann talar inn á milli inn á við kallar á betri hljóðmögnun (ef hún var einhver).
Textinn, uppbyggingin, andstæðurnar í Sveini Kristinssyni, yfirlætið í bland við uppgjöfina - allt þetta fannst mér ganga upp. Það er frontur á okkur öllum, við viljum að minnsta kosti flest koma vel fyrir og ég trúi flestum til að fegra aðstæður aðeins. Sveinn gerði það svikalaust en þegar hann horfði inn á við og lét sér áhorfendur í léttu rúmi liggja kom á daginn að margt hafði verið honum mótdrægt. Titlar geta verið svo grefilli innistæðulausir.
Arnar sjálfur var hylltur í lokin (ein sýning eftir) og hann átti klappið skuldlaust. Mér fannst honum ekki liggja nógu hátt rómur, eins og fram er komið, en fjölbreytni í raddbeitingu og hollningu, látbragði og leik var öll til fyrirmyndar. Ég trúi að hann hefði hangið á löppunum í leikfimigrind ef leikstjórinn hefði sett honum það fyrir, svo lipulega kemur hann mér fyrir sjónir.
Ég er ekki lítið ánægð með að láta telja mig á að fara í Þjóðleikhúsið í kvöld.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.