Fimmtudagur, 28. nóvember 2013
Í fréttum er ýmislegt
Nú er engin gúrkutíð. Borgarbúar eru heilt yfir ánægðir með borgarstjórann. Berlusconi skandalíserar. 9.300 eru án atvinnu. ASÍ (leiðsögumenn meðal annarra) stefna að árskjarasamningi (sem sagt stuttum) við SA vegna óvissu í efnahagsmálum. Verða verkföll? Hvað eru kennarar að hugsa? St. Jósefsspítali stendur enn tómur og tappalaus í Hafnarfirði. Björt framtíð vill leyfa foreldrum að skíra börnin sín Y eða @. Ókei, ég er trúlega að oftúlka. Ég heyrði frétt af svínshausum sem voru skildir eftir á lóð múslima í Safamýri en nú finn ég hana hvergi. Ég fordæmi þá hegðun en kannski skýrist hún af því að vitleysingar eru á sveimi. Vitleysislega hegðun má samt ekki leiða hjá sér í þeirri von að fólk vitkist og verði skynsamt og hæfilega umburðarlynt án tilsagnar.
Frétt dagsins er samt af uppsögnunum hjá Ríkisútvarpinu. Ég var búin að fá áskorun um að skrifa undir mótmælaskjal áður en ég vissi almennilega hvað var í gangi. Ef ég hefði lesið fjárlagafrumvarpið almennilega hefði ég sennilega vitað af niðurskurðinum en samt ekki endilega vitað af viðbrögðum Páls Magnússonar. Reyndar stendur bara í lið 02-971 að rúmlega 3,5 milljarðar séu greiddir úr ríkissjóði en ekki hvað var í fyrra þannig að þótt ég hefði lesið frumvarpið eitt og sér hefði það ekki dugað til.
Og hvað er þá í gangi? Ríkisútvarpið fær minna til ráðstöfunar en það hefur haft. Útvarpsstjóri segist forgangsraða og ekki skera flatt niður. Hvað velur hann að skera niður? Það ætti að vera áhugavert fyrir alla að skoða og nú ætla ég að reyna að glöggva mig á þessu út frá sjálfri mér eins og ég sé að margir hafa gert í dag.
Ég hlusta mikið á útvarp, helst talað mál. Ekki lesið mál, ekki tónlist, ég hlusta mest á talað mál. Þar er áhugasvið mitt. Ég hlusta á spjallþætti, bæði morgun- og síðdegisútvarp RÚV og Bylgjunnar. Ég á marga uppáhaldsþætti, s.s. Órangútaninn á Rás tvö á laugardagsmorgnum, Vikulokin á Rás eitt á laugardagsmorgnum (innbyrðis samkeppni þar), Grínista hringborðsins (samt mistækur þáttur), horfði alltaf á Silfur Egils, hlusta alltaf á Villa naglbít á sunnudögum - ókei, ég er ansi mikill notandi. Ég á eftir að sakna Jóhannesar Kr. og mjög mikið Margrétar Erlu Maack, dálítið Guffa og Lindu. Ég sé núna að breytt dagskrárgerð á eftir að hafa áhrif á líf mitt.
En mín vegna hefði mátt leggja íþróttadeildina niður. Hver var eiginlega Páli til ráðgjafar í þessu máli? Ég hefði aldrei lagt til að hætt yrði að segja íþróttafréttir þótt mér sé sjálfri sama um þær, ég hefði bara tónað þær niður í 5-10% af því sem nú er. Upptalning á markatölum er hvort eð er meira fyrir skrifuðu miðlana, ekki þar sem textinn er fluttur af munni fram.
Nefskattur, afnotagjöld, framlög, beingreiðslur - ég er búin að sjá umræðu um að það hafi verið óráð af leggja af afnotagjöldin. Voru þau eyrnamerkt Ríkisútvarpinu?
Af því að ég er hvort eð er komin út um víðan völl ætla ég að láta eftir mér að hugsa þetta upphátt: Hefði ekki verið nær að draga úr framlögum til þjóðkirkjunnar? Margt í útvarpinu hefur meira sáluhjálpargildi fyrir mig en illa sóttar messur í nafni guðs sem ég trúi ekki á.
Og nú var verið að benda mér á að laun útvarpsstjóra voru leiðrétt, eins og það heitir, vorið 2012 þannig að hann lepur ekki dauðann úr skel. Er hann verðugur? Gerir hann gæfumuninn? Léttir hann mönnum lífið, styttir hann stundirnar fólki sem situr heima hjá sér og getur ekki annað?
Ég er farin að hallast að því að það sé vitlaust gefið í þessum útvarpsmálum og er ég þó að reyna að vera umburðarlyndið uppmálað.
... sagð'ún meðan hún hlustaði á næturútvarp Ríkisútvarpsins. Skrens, engar fréttir klukkan eitt eftir miðnætti?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.