Mánudagur, 2. desember 2013
Að hringja eða senda sms
Ekkert er mér fjær en að bera blak af Hrannari Péturssyni, talsmanni Vodafone, en ég get ekki alveg látið vera að hugsa hvort hin símafyrirtækin séu nokkru skárri. Eftirlitið gæti verið í molum, þori ekki að fullyrða neitt þar sem ég hef sjálf engan aðgang að upplýsingunum, lagasetning í skötulíki og letin í algleymingi. Viðkvæmar og ofurpersónulegar upplýsingar gera ekkert nema skemmta skrattanum þegar þær komast út á meðal fólks. Ég gluggaði í gullkornin sem einhver setti á Facebook og sá a.m.k. ekki neitt sem varðaði forræðisdeilur eða óuppgerð mál. Ég las sjálfsagt ekki nógu lengi. Ef það er satt að ráðamenn fari á leyndófundi með hagsmunaaðilum er hins vegar allt önnur staða uppi og það hlýtur að verða athugað.
Ég veit dæmi þess að fólk verður að ljúka erfiðum málum skriflega af því að annar aðilinn er ekki til viðræðu. Þannig komast viðkvæm mál á prent þótt fólk reyni að vanda sig og forðast stóryrði. En að þeim dæmum slepptum mætti fólk aðeins líta í eigin barm og hugsa sig um tvisvar áður en það sendir tölvupóst og sms. Það er góð regla að senda ekkert frá sér nema manni væri samt þótt það rataði á forsíður blaðanna. Ég ítreka að þessi regla getur ekki verið án undantekninga en mjög oft hefði fólk gott af að geyma sendingarnar í einhverja klukkutíma og sjá hvort því yrði ekki öðruvísi innanbrjósts að þeim tíma liðnum.
En fjarskiptafyrirtækin hljóta engu að síður að verða undir vökulu auga hvers? næstu mánuðina.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.