Hver eru viðurlögin við því að brjóta lög um RÚV?

Ég sat með um það bil 1.000 manns í Háskólabíói í einn og hálfan klukkutíma í kvöld. Guðrún Pétursdóttir var röggsamur fundarstjóri sem lagði út af erindum og flutti kveðjur héðan og þaðan. Guðmundur Andri var með brýningu, Melkorka sögustund, Hanna G. Sigurðardóttir dagskrárgerðarmaður (ekki í upptalningunni) tölur úr rekstri, Sigríður talaði sem langtímahlustandi, Benedikt um sameiningu kynslóðanna og Kolbeinn eiginlega líka. Ræðumenn voru yfirvegaðir sem mér finnst alltaf miklu betra. Þótt ég hafi ekkert á móti andagift og stemningsræðum á ég bágt þegar þær verða of tilfinningaþrungnar. Engin ræðan var svoleiðis þótt þau legðu sum út af eigin hlustun og lífi með útvarpinu.

1. gr. laga um Ríkisútvarpið er svohljóðandi:

Markmið laga þessara er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.

Ég var aðeins að velta fyrir mér hver sækir og hver refsar ef þetta ákvæði er brotið.

Einhver ræðumaður hafði líka gluggað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar:

Íslensk þjóðmenning verður í hávegum höfð, að henni hlúð og hún efld. Áhersla verður lögð á málvernd, vernd sögulegra minja og skráningu Íslandssögunnar, auk rannsókna og fræðslu. Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innanlands sem utan. 

Hún er náttúrlega síðan í maí og kannski dottin úr gildi. Hlutirnir breytast svo hratt orðið ...

Ég hlusta á Bylgjuna og ég hlusta á X-ið (reyndar bara Harmageddon) og þar kennir ýmissa góðra grasa en það er auðmelt spjall og hraðspiluð tónlist að mestu leyti. Rás 1 sinnir allt öðru litrófi og gerir það ein útvarpsstöðva. Málefnalega er bara út í bláinn að slá af svona marga unna þætti.

Hvað veldur því að tónlistaryfirsýninni er kastað fyrir róða? Ég trúi ekki að flokkapólitík eigi hlut að máli. Hvaða flokkur gæti beðið skaða af því að við kynnum betri skil á djass eða blús eða rokki? Eða sígildri tónlist? Á fundinum kom fram að fram til þessa hefur Rás 1 fengið 7% af rekstrarfénu en yfirstjórnin 6%. Það sér hver maður að röðin er alvitlaus.

Es. Starfsmannamál RÚV voru rædd á þingi í dag. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rafn Guðmundsson

ekki er ég að sjá nein lögbrot þarna hjá rúv - hvaða lög er þú að sjá brotin?

Rafn Guðmundsson, 4.12.2013 kl. 22:15

2 identicon

Þetta er ekki fyrsta sinn á síðustu árum sem mörgum er sagt upp í einu á RÚV. Afhverju voru ekki haldnír slíkir fundir þá og afhverju olli það ekki sama uppnáminu? Er kannski ekki sama hverjir eru í stjórn? Eru uppsagnirnar betri og skiljanlegri þegar vinstri stjórn er við völd? RÚV er kennslubókadæmi um opinbera stofnun sem virðist þenjast stjórnlaust út og þróast langt frá skilgreindu hlutverki sínu. Vefst það ekkert fyrir þér að við þessa stofnun sem er kostuð er af almannafé skuli starfa yfir 300 manns og að hún taki til sín yfir 5,6 milljarða? Var engin á fundinum sem velti þessu fyrir sér?

Stefán Örn valdimarsson (IP-tala skráð) 4.12.2013 kl. 22:26

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Rafn, ég er að velta fyrir mér til hvers lög eru ef þau eru svo loðin að þau segjq ekki neitt. Og ef þessi eru brotin – bara ef – hvað gerist þá? Hver getur metið hvort þessi ákvæði sem ég vitnaði í eru virt? Ekki ég. Og ég er bara að tala sem almennur útvarpshlustandi af því að ég er enginn innanbúðarmaður.

Ég skal ekki segja, Stefán. Var ekki uppþot út af uppsögnum hjá RÚV á Akureyri og Egilsstöðum? Mig minnir það. Ég velti alveg fyrir mér almennri framlegð, þenslu, lélegum vinnubrögðum og stjórnun fyrirtækja. Enginn frummælandi talaði um þessa 300 í kvöld, hins vegar var talað um að útvarpsgjald + nefskattur væri einmitt þessi tala sem þú nefnir, 5,6 milljarðar, en í hvað fara þessar upphæðir? Dagskrárgerð eða silkihúfur? Ég veit það ekki.

Svo er hitt, var í alvörunni ekki búið að skera mestu fituna með fyrri uppsögnum? Ég er alveg sammála þér að margar stofnanir hafa þanist út með illa skilgreint hlutverk en þarf þá ekki að greina fyrst hverju breytingarnar eiga að ná fram?

Benedikt Erlingsson spurði: Höfum við efni [af því að við erum hér að tala um peningamálin] á að hafa ekki Kastljós? Hafa umsjónarmenn Kastljóss ekki afhjúpað skattsvik og alvarleg kynferðisbrot sem annars lægju í þagnargildi? Er ekki verið að draga tennurnar úr fréttaskýringaþætti sem hefur sannað sig hingað til? 

Berglind Steinsdóttir, 4.12.2013 kl. 23:08

4 Smámynd: Rafn Guðmundsson

ekkert af því að hafa kastljós áfram (eins og mér sýnist það vera) en kannski eru óþarfi að hafa þáttinn 4 -5 sinnum í viku. langt frá því að þar sé alltaf verið að afhjúpa skattsvik og kynferðisbrot.

Rafn Guðmundsson, 4.12.2013 kl. 23:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband