Fimmtudagur, 5. desember 2013
RÚV er ekki hafið yfir gagnrýni
Ég hef aldrei unnið á RÚV (hef hins vegar sótt um vinnu þar) og þekki enga innviði stofnunarinnar. Ég veit ekkert um einstaka kostnaðarliði, ekkert um raunkostnað við framleiðslu einstakra þátta og í raun ekki nóg um hvort eyrnamerkt fé fer til RÚV. Mér skilst þó að markaðsdeildin hafi verið varin þegar 39 manns var sagt upp.
RÚV bar á góma í hádeginu. Einn sagði: Það ætti að leggja Ríkisútvarpið niður. Það er fjálglega talað um öryggisþáttinn en þegar á hólminn er komið eru aðrir miðlar á undan RÚV með fréttir af eldgosum ef því er að skipta. Þegar maður keyrir um á vissum stöðum úti á landi nást kristilegar stöðvar og Útvarp Saga en hvorki Rás 1 né Rás 2.
Já, ég verð að taka undir að öryggisþátturinn hefur verið fyrirferðarlítill upp á síðkastið, kannski í mörg ár. Hvaða fjall gaus, og hvenær, og það var ekki hægt að segja frá því í útvarpi allra landsmanna fyrr en einhver landsleikur hafði verið leikinn til síðasta blóðdropa? Að nafninu til er Hekla vöktuð á RÚV-vefnum en núna stendur: Server not found o.s.frv.
Ef RÚV hefur öryggishlutverk verðum við líka öll að vera með stillt á RÚV, er það ekki? Ef einhver er að hlusta á tónlist á Mono eða Rondo missir hann af mikilvægum tilkynningum hjá Ríkisútvarpinu, er það ekki? Eða hefur útvarp allra landsmanna heimild til að rjúfa útsendingar annarra, t.d. ef stríð brytist út? Ég veit það ekki.
Ég ítreka að ég er ekki manneskjan til að stokka upp hjá stofnuninni en ég trúi að það sé hægt að hagræða þar eins og víða. Árshlutareikningur fyrir 1. september 2012 til 28. febrúar 2013 er aðgengilegur og samkvæmt honum var dagskrár- og framleiðslukostnaður tæpir 2 milljarðar en dreifi- og sölukostnaður 238 milljónir. Eðlileg hlutföll? Rekstur og stjórnun tæplega 300 milljónir. Er því fé vel varið?
Krafa margra um að marka stefnu og hagræða svo er eðlileg. Af hverju voru til dæmis þulir reknir með hraði og svo Helgi Pé sóttur til að brúa bil?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.