Vanlæsi?

PISA, PISA, PISA. Almennar kannanir og sértækar kannanir eru ekkert hafnar yfir vafa. En ef síendurteknar kannanir benda til afgerandi vondrar niðurstöðu er ekki úr vegi að skoða hvaða leiðir gætu verið til úrbóta.

Á fimmtudaginn var viðtal við konu í Speglinum sem sagði að í Noregi væri ritmálið líkara talmálinu (er það þá ekki „nynorsk“ vs „bokmål“?) og hélt að það gæti verið ástæðan fyrir almennu læsi til skilnings í Noregi, þ.e. að unglingsstrákar lesa sér almennt til gagns en á móti fer skilningur fyrir ofan garð og neðan hjá 30% íslenskra stráka á sama aldri.

Athyglisvert.

Ég fæ sjálf andarteppu við tilhugsunina um að skrifa *héddna, *telft, *Kebblavík og *hæhda en ég er samt til í að láta skoða hvort lausnin gæti legið í rithættinum, þ.e. að það að færa hann nær talmálinu og fjær upprunanum. Samt er ég mikill áhugamaður um að fara eftir stofninum. Og ég minni á að býsna margir áttu erfitt með að kasta zetunni á sínum tíma en fáir sakna hennar í dag. Ég væri næstum alveg til í að æfa mig í að skrifa ekki ipsilon (y). Þá færum við *ifir, góðir krakkar væru *indi og ein vinkona mín héti *Brindís. Ég *mindi mest sakna þess í viðtengingarhætti þátíðar, sbr. þótt við styngjum af > þótt við *stingjum af. #hrollur Samt til í að skoða það.

Svo var í þessum sama Spegli talað um að börn á máltökualdri væru gjarnan í háværu umhverfi leikskólanna þar sem illa talandi (vegna aldurs) smábörn hefðu hæst. Leikskólabörn heyra oft ekki fallegt, gamalt, gott og gilt tungumál af því að þau heyra mest hvert í öðru. Já, ég held að það sé heilmikið til í þessu. Það þarf að hafa fyrir börnum það sem við teljum fagurt og rétt.

Einhver lagði út af þessu á Facebook í vikunni og fólk sem ég tek mark á fann því strax allt til foráttu, einkum því að laga ritháttinn að framburði. Kannski er niðurstaðan úr PISA ekki slæm í alvörunni en mér finnst eðlilegt að stjórnvöld, þá meina ég yfirvöld skólamála, kanni allar leiðir. Er kannski allt í gúddí?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband