Mánudagur, 9. desember 2013
Martröð minnisleysisins
Þegar fólk á allt reynir annað fólk að gefa því minningar við vel valin tækifæri, eins og á jólum og afmælum. Minningar eru mikils virði. Minningar ylja fólki ef því líður illa og minningar fara í reynslusafnið.
Þess vegna er skelfileg tilhugsun að muna ekki neitt, að vakna óskrifað blað á hverjum morgni, halda að maður sé kannski 17, líta svo í spegilinn og reynast vera 47 ára. Það er skelfilegt að byrja upp á nýtt hvern dag og þurfa svo líka að treysta öðru fólki í einu og öllu, rata ekki um húsið sitt, kunna ekki á síma, vita ekki hvar maður býr.
Þetta er veruleiki Christine í Áður en ég sofna og ástæðan er slys sem hún lenti í. Það sem mér þótti alllengi framan af undarlegt var hversu lítið tengslanetið var. Hún átti eiginmann en ekki foreldra, systkini, vini eða (fyrrverandi) samstarfsfélaga. Eiginmaðurinn fór á hverjum morgni í gegnum lífshlaupið í stuttu máli og svo gekk hún daglega í gegnum það sama, að átta sig, læra á grunnatriðin, alveg skýr í höfðinu en að sama skapi minnislaus. Og eiginmaðurinn í vinnunni.
Bókin er rúmlega 400 síður og þrátt fyrir ágæta spennu er hún a.m.k. 100 síðum of löng. Of margt er endurtekið of oft. Loðmullan gerði það að verkum að ég var komin á fremsta hlunn með að hlaupa yfir tugi hér og þar en þá hefði ég getað misst af mikilvægum vísbendingum.
Eftir 80 blaðsíður var mig farið að gruna hvernig í landinu lægi og ég er ekki sú slungnasta í glæpagátunum. Þannig þykir mér hún hafa orðið fyrir talsverðu oflofi, sagan, en þýðingin var hins vegar afbragð. Þýðandi notaði viðtengingarhátt og býsna oft flókin orð sem hægt hefði verið að þýða með skiljanlegri orðum. Ég fíla það.
Svona nokkuð var sjaldgæft:
Ég átti engra kosta völ nema segja Ben það. (bls. 30)
Enskan skín í gegn, er það ekki? I didn't have any other choice but to tell Ben? Ég átti engra annarra kosta völ en að segja Ben það.
Hégómleg athugasemd við þýðinguna sem var stundum fín og oft ósýnileg en því miður þoldi sagan ekki svona langt mál.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.