Eru konur vanmetin auðlind?

Val á íþróttamanni ársins var tilkynnt í gærkvöldi (ótrúlega vont sjónvarpsefni) og vitaskuld geispaði maður við tilhugsunina. Ég geispaði alltént og þóttist vita að Gylfi yrði fyrir valinu. Auðvitað vissu keppendur hver yrði ekki fyrir valinu, a.m.k. sá sem var valinn númer 1 því að viðtal var tekið við hann í útlandinu sem hann býr í.

Ég get vorkennt honum alveg óskaplega því að nú þegar ég opna Facebook sé ég að vinir mínir af báðum kynjum hafa tekið þetta fyrirbæri, val íþróttafréttamanna, til bæna. Ekki Gylfa, heldur valið. Rökin eru þau að Aníta hafi unnið titla, skarað fram úr, verið fremst og sigrað aðra. Einhverjir hafa orð á því að hún sé í unglingaflokki og ætti ekki að vera tilnefnd yfirleitt.

Ég fylgist ekki nógu mikið með íþróttum frá degi til dags en ég er handviss um að margt íþróttaafrekið er hægt að mæla í mínútum, mörkum og metrum. Hvað vill val íþróttafréttamanna upp á dekk? Er það þá ekki bara huglægt og hrikalega ómarktækt?

Ég geispaði við tilhugsunina um hið fyrirsjáanlega val. Mamma mín, sem er fædd 1927, var hins vegar ógurlega spennt og algjörlega sannfærð um að Aníta Hinriksdóttir yrði fyrir valinu. Pabbi, sem er enn eldri, hélt það líka. Ég get alltént verið kát með það að eiga foreldra sem eru ekki forpokaðar risaeðlur.

Aníta Hinriksdóttir er alveg áreiðanlega óformlegt val stórs hluta þjóðarinnar og óneitanlega þess hluta sem ég tek meira mark á. Gylfi er fórnarlambið hérna.

Og ofan í þetta las ég stórgóðan og málefnalega pistil konu í stjórnmálum sem minnir á að þótt okkur finnist okkur hafa miðað fram á veg er mikið verk óunnið. Við búum enn í afar karllægu samfélagi. 

Enn er því við að bæta að á Sprengisandi er núna önnur kona í stjórnmálum að tala um kúltúr miðaldra karlmanna í stjórnmálum.

Því miður þarf enn að minna á að stundum virðist gengið framhjá konum fyrir það eitt að vera konur. 

Es. Uppáhaldsfréttastofan mín kom með nýtt sjónarhorn á málið og óskaði Gylfa til hamingju með fyrstu verðlaunin á árinu. Í gær var 28. desember. 

Ees. Var að tala við mömmu sem sagði að þau pabbi hefðu steytt hnefann framan í sjónvarpið í gær þegar Aníta var ekki valin. Mamma og pabbi eru alvöru. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðlaugur Hermannsson

Eru konur ekki 50% af mannauði?

Guðlaugur Hermannsson, 29.12.2013 kl. 12:03

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Jú, ef ekki meira. Það taka bara ekki allir eftir því.

Berglind Steinsdóttir, 29.12.2013 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband