Mánudagur, 6. janúar 2014
Walter Mitty eða Marilyn Monroe - þar er efinn
Svo mikið var íslenski hlutinn í myndinni um Walter Mitty hæpaður upp að ég varð bara að sjá myndina við fyrsta tækifæri. Og fyrsta tækifæri gafst um helgina á Akureyri. Sannarlega var bíóferðin skemmtileg í skemmtilegum félagsskap en samt varð ég fyrir talsverðum vonbrigðum með söguna. Ísland birtist ekki fyrr en 40 mínútur voru liðnar af myndinni og svo var náttúrlega margt ótrúverðugt. Það er hluti af sögunni, ég er búin að ná því, hún var um draumaveröld gaursins.
Samt.
Ekki nógu hrifin án þess að sjá vitund eftir að hafa farið.
Á leiðinni heim sá ég aðra mynd í bílnum, svarthvíta mynd sem ég hef ekki fyrr séð þótt hún sé frá árinu 1959, mynd sem skartar stjörnunum Marilyn Monroe, Tony Curtis og Jack Lemon, mun frjálslegri mynd en ég hefði veðjað á. Auðvitað var eltingarleikurinn, búningaskiptin, lygarnar og allt mögulegt ósannfærandi.
En samt.
Some like it hot.
Svo hef ég aldrei alveg kunnað að meta Ben Stiller. Stundum ræður maður bara ekki við smekk sinn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.