Gylfi og Vilhjálmur í Kastljósinu

Kastljós kvöldsins er ekki komið í Sarpinn en Sigmar spurði Gylfa Arnbjörnsson hjá ASÍ hvort hann gæti lifað af 191.000 kr.

Okkur heyrðist hann segja: Alveg eins.

Það fólk sem er með 191.000 kr. í heildarlaun á mánuði gerir ekki meira en að lifa af. Og ef eitthvað fer úrskeiðis, veikindi eða biluð þvottavél, eða ferming stendur fyrir dyrum, að maður tali ekki um þvílíkan munað sem skíðaferð til Akureyrar er eina helgi, er fjandinn laus.

Á Íslandi er ekki hægt að lifa samanburðarlífi ef launin eru 191.000 á mánuði. Það eru 2.292.000 á ári. Hvað kostar skikkanleg þriggja herbergja íbúð í Reykjavík? Hvað kostar hveitipokinn? Hvað kostar að kynda? Hvað kostar að hringja? Guð minn góður, hvað kostar að keyra milli hverfa?!

Kjarasamningarnir eru ekki boðlegir. 

Eini raunhæfi samanburðurinn er það líf sem meðalmaðurinn á Íslandi lifir. Sjálf veit ég ekki til þess að ég þekki neinn sem getur ekki leyft sér að hafa netið heima hjá sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Til hvers er verkalýðshreyfingin að borga Gylfa fimm eða sexföld þau laun sem hann getur lifað af?

Lækkum launin hans, setjum hann á lámarkstaxta og öruggt má telja að áhugi hans á að rífa upp þau laun munu aukast til muna. 

Axel Jóhann Hallgrímsson, 7.1.2014 kl. 20:52

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, það mætti athuga það. En ætli það sé fortíðarhyggja að halda að Gvendur Jaki hafi staðið sig betur á sinni tíð? Hvernig myndi hann tækla þetta núna?

Berglind Steinsdóttir, 7.1.2014 kl. 20:56

3 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Hver ákvað laun þessa manns ? Gerði hann það ekki sjálfur '''

Erla Magna Alexandersdóttir, 7.1.2014 kl. 21:00

4 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Hvað sem um Guðmund Jaka má segja þá deildi hann, ólíkt Gylfa, kjörum með sínum umbjóðendum og hafði því ólíkt betri skilning á þeirra þörfum.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 7.1.2014 kl. 21:06

5 identicon

Mér finnst Gylfi Arnbjörnsson ekki vera trúverðugur í hlutverki sínu sem forseti ASÍ.

Mér finnst allur málflutningur hans bera þess merki að hann sé að gæta hagsmuna einhverra annarra en staða hans segir til um.

Þá finnst mér það með hreinum ólíkindum að maðurinn trúi því sjálfur að hér náist einhver stöðugleiki. Bílastæðasjóður hækkaði sínar gjaldskrár um tæplega 200% fimmtán mínútum eftir að Gylfi skrifaði undir stöðugleikasamninginn. Byrgjar eru nú hver á fætur öðrum að tilkynna verðhækkanir á nauðsynjavörum. Þetta er sama leikritið aftur og aftur.

Þá get ég ekki séð hvernig það geti raskað hér stöðugleika að þeir lægst launuðu geti lifað af sínum mánaðarlaunum. Og ef það er svo að það raski hér öllum stöðugleika þá er einfaldlega eitthvað meiriháttar að hér sem ætti miklu frekar að laga en að kúga láglaunafólkið endalaust. Mín skoðun. Rétt eða röng.

Skúli Sigurðsson (IP-tala skráð) 7.1.2014 kl. 22:22

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Mér sýnist við öll frekar sammála. Nú er bara spurning um afdrif samninganna því að þegar til stykkisins kemur hafa félagsmenn síðasta orðið.

Berglind Steinsdóttir, 7.1.2014 kl. 23:47

7 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Maður sem heldu óskertum launum og lífeyri til æviloka, á launum sem eru frá því að vera fimm og upp í sexföld laun svoallaðra "umbjóðenda" sinna, þarf nú ekki mikið að hafa áhyggjur af hlutunum, frekar en illa innrættur stjórnmálamaður sem nær því að verða ráðherra.

Ekki gleyma því heldur, að hann beggja vegna borðs, er kemur að umræðu um afnám verðtryggingar. Hann situr nefnilega í stjórn lífeyrissjóðs og hefur þaðan enn meiri tekjur, fyrir að HALDA verðbólgunni áfram.

Fulltrúaráð ASÍ er þannig upp byggt, að nánast ómögulegt er að koma ríkjandi formanni frá.

Þetta hefur hinsvegar illa mætandi verkalýðurinn á félagsfundi áskapað sér og þar við situr.

Ef maður ekki nennir að hafa áhrif, gerist ekki neitt.

Halldór Egill Guðnason, 8.1.2014 kl. 02:04

8 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Afsakið stafsetningarvillur að ofan...;-)

Halldór Egill Guðnason, 8.1.2014 kl. 02:06

9 identicon

Þegar öfund á launum annarra er orðinn aðal drifkrafturinn og krafan að lægstu laun borgi þriggja herbergja íbúð í Reykjavík, bíl og skíðaferðir er fólk orðið ómarktækt í rugli og þvælu.

Oddur zz (IP-tala skráð) 8.1.2014 kl. 13:27

10 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég er mest hissa á að Oddur syfjaði hafi ekki blandað sér fyrr í umræðuna. Ef menn eru á háu kaupi hafa þeir kannski ekki nægan hvata til að beita sér af alefli, um það snýst launasamanburðurinn.

Hvað má láglaunafólk alla ævi leyfa sér umfram brýnustu nauðsynjar, Oddur? Það er alveg hægt að „lifa“ á hafragraut, strætókorti og bókasafnsskírteini. Má láglaunamaðurinn fara í sólarlandaferð á 10 ára fresti? Má hann senda börnin sín á badmintonnámskeið? Má hann versla hjá Frú Laugu? Má hann eiga farsíma? Má hann gefa jólagjafir?

Hvað „má“ milljón króna maðurinn? Má hann borða á Argentínu? Má hann eiga Pajero?

Það er bara ekkert athugavert við að fiskvinnslufólk, bensíndátar og leiðsögumenn eigi einhvers staðar heima og geti leyft sér að líta upp úr amstri dagsins þegar þau eiga stund aflögu.

Knúz.

Og já, meðan ég man, ég lifi sjálf eins og greifi (tek það fram af því að mig grunar að ég þekki fæsta lesendur að færslunni).  

Berglind Steinsdóttir, 8.1.2014 kl. 20:41

11 identicon

Auðvitað er ekkert athugavert við að fiskvinnslufólk, bensíndátar og leiðsögumenn eigi einhvers staðar heima og geti leyft sér að líta upp úr amstri dagsins þegar þau eiga stund aflögu. það sem er athugavert er að ætlast til þess að vinnuveitendur fjármagni sældarlífið burtséð frá virði skilaðrar vinnu. Borgar þú krakka 10000 kall í hvert sinn sem hann fer út með ruslið? Krakkanum langar í tölvuleiki, bíó, kók og popp sem hann vill að þú sem vinnuveitandi borgir. Hvað einhver þarf til að lifa því lífi sem hann dreymir um kemur vinnuveitendum ekkert við. Það væri frekar að gera kröfu um að betur stæðir ættingjar borguðu það sem uppá vantar.

Svo gætu vinnuveitendur athugað nýstárlega tilgátu þína til við gerð kjarasamninga; "Ef menn eru á háu kaupi hafa þeir kannski ekki nægan hvata til að beita sér af alefli". Fiskvinnslufólk, bensíndátar og leiðsögumenn leggjast sennilega bara í hægagang og leti ef kaupið hækkar.

Oddur zz (IP-tala skráð) 9.1.2014 kl. 15:58

12 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég get ekki haldið áfram að skattyrðast við nafnlausan mann sem kýs að snúa út úr því sem ég skrifa.

Berglind Steinsdóttir, 9.1.2014 kl. 16:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband