Tilkomulítil sagan, og ekki öll

Nú er ég búin að koma höndum yfir Söguna alla í ritstjórn Illuga Jökulssonar sem ég hef haft dálæti á frá því að hann skrifaði í Þjóðviljann. Enn betur líkaði mér við hann þegar ég fékk að hlusta á hann flytja pistlana sína og allra best þegar ég sá hann líka. Hæfileg uppreisn, skeytingarleysi gagnvart viðteknum gildum í afstöðu og klæðaburði, dekur við skynjun mína.

Og nú er hann sestur í stól ritstjórans, vel í felum fyrir mér. Hann var reyndar í Kastljósinu á sunnudaginn var og sagði einmitt þar frá þessu nýja útgáfustarfi sínu. Þegar ný dagblöð eða tímarit stíga fyrstu skrefin fer ég alltaf að hugsa um markhópinn - fyrir hvern er skrifað? Og þegar ég er búin að fletta vandlega fyrsta tölublaðinu af Sögunni allri hallast ég að því að blaðið sé skrifað fyrir sæmilega forvitna krakka. Ég þykist vita að fyrir Illuga hafi vakað að vera með fróðlega sögu í knöppu formi og veit fyrir víst að fyrirmyndin er sótt til Svíþjóðar.

Hins vegar ættu sæmilega forvitnir krakkar að fá betur stílaðan texta og þá færi líklega best á því að Illugi skrifaði greinarnar sjálfur. En kannski myndirnar allar og glanspappírinn allur höfði til krakka ... ég held samt ekki.

Og hvað varðar svo hégómlegt atriði sem ritstjórn á málfari og stíl finnst mér sérkennilegt að sjá talað um egifskar eitthvað (sem truflar mig ekki neitt en virðist sannarlega meðvituð höfnun á egypskum sem er normið) og síðan Julius Caesar. Vantar ekki eitthvað upp á samræmið? Kannski er það samkvæmnin í blaðinu öllu að vera með uppreisnarlegan rithátt á sumu og afar íhaldssaman á öðru.

Illugi, hefurðu gengið til góðs ...?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband