Fimmtudagur, 8. mars 2007
Ætli ég vinni í kosningunum í vor?
Nú er mér mikill vandi á höndum. Í dag barst mér bréf frá skrifstofustjóra borgarstjórnar þar sem hann óskar eftir starfskröftum mínum í undirkjörstjórn á kjörstað sem næst heimili mínu í alþingiskosningunum 12. maí.
Ég hef lagt Reykjavíkurborg lið nokkrum sinnum, framan af mér til óblandinnar ánægju en síðustu tvö skipti hef ég verið óheppin með samstarfsfólk í kjördeild. Þetta er nefnilega ekki svo einfalt að maður bara rétti fram lúkuna eftir persónuskilríkjum, það þarf að leiðbeina sumum kjósendum, fylgja fram í yfirkjörstjórn, merkja rétt í bókina, 0 fyrir konur og X fyrir karla (eða öfugt) í réttan dálk og stemma af - stemma af - stemma af og passa að öllum tölum beri saman. Og nógu slæmt er að vera í samfloti með fólki sem kann þetta ekki, enn verra er þegar það heldur að það geti og kunni - en kann hvorki né getur.
Þóknunin fyrir setu í undirkjörstjórn er 23.000. Þótt upphæðin sé lág fyrir 14-15 tíma laugardag hefur mér þótt það hégómi enda er þetta í eðli sínu þegnskylduvinna. Og ef það er gaman ...
Spurningin frá mér til mín er bara hvort nú sé nóg að gert. Ég ætti kannski að finna mér annan og félegri félagsskap þann 12. maí næstkomandi.
Að auki finnst mér óþarfi að skrifstofa borgarstjórnar biðji mann að tilkynna um þáttöku eða forföll. Hvort myndi ég þá aka þátt eða taka þát?
Athugasemdir
úff, úff, úff þetta er nú ekki nærrum því nógu gott Berglind, gleymdir að gera afmælis blogg um mig, [dæs] jæja, til hamingju með afmælið ég eða á sæmri íslensku til "hammó með ammó'' úff, saad:(
Addý beibí (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 00:29
Gleymdi og gleymdi ... sumir myndu nú segja að ég hefði gleymt að skrifa um alþjóðlegan baráttudag kvenna, ha. Og sumum fyndist bara nær að maður óskaði fólki til hamingju með afmælið í eigin persónu, ha.
Hahha.
Ég gleymi aldrei neinu ...
Berglind Steinsdóttir, 12.3.2007 kl. 08:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.