Föstudagur, 9. mars 2007
Skilningarvitin
Þegar ég var hálfgerður krakki var ég að vinna hjá SS í Glæsibæ. Mér þótti það fjölmennur vinnustaður og stundum var ærandi hávaði í kaffitímunum. Og ég man að einu sinni hugsaði ég og sagði svo: Ég vildi að ég væri heyrnarlaus. Auðvitað gerði ég mér grein fyrir vanþakklæti mínu og auðvitað var mér engin alvara. Ég lét þessi orð samt falla.
Nú nenni ég ekki að sjá eftir þessu, enda eru bernskubrekin til þess fallin að vaxa upp úr þeim. Og ég vildi sannarlega ekki vera heyrnarlaus, hvorki þá né nú.
Þetta vekst upp fyrir mér af því að fyrir Alþingi liggur forvitnilegt frumvarp um réttarstöðu heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Heill hellingur þingmanna styður það með því að vera meðflutningsmenn og nú er ég mjög spennt að sjá hvernig því vindur fram á næstu dögum. Í gær spjallaði ég um stund við Fransmenn sem hafa verið hér í viku og þeir spurðu mig út í táknmálsfréttirnar sem eru rétt fyrir kl. sex í sjónvarpinu og undruðust mjög að ekki væri talað með því. Þessi 10 mínútna fréttatími er það eina sem heyrnarlausum stendur til boða - fyrir utan þegar verið er að fjalla um mál þeirra sjálfra, þá er túlkað og/eða textað. Eins og heyrnarlausir hafi ómögulega áhuga á öðrum málum þjóðlífsins ...
Enn fremur hef ég kynnst störfum táknmálstúlka undanfarin ár þar sem þeir hafa túlkað bæði þar sem ég hef verið að kenna og þar sem ég hef sjálf verið í námi. Þetta er einfaldlega allt annað tungumál, það er eins og að vera í tíma í þýðingafræðum sem fer fram á japönsku - maður skilur bara ekkert. Og þá er maður útundan.
Athugasemdir
Ætli sé áhugi einhver möguleiki, og þá möguleiki á rekstri sér rásar fyrir heyrnalausa, og þá með blönduðu efni, auglýsendur ættu auðvelt með að vera með auglýsingar því margar eru bara myndrænar.
En þetta er sennilega fáránleg hugmynd.
Sigfús Sigurþórsson., 9.3.2007 kl. 08:11
Ég hef oft spáð í þetta afhverju er ekki tálmál í meða fréttatíminn er hægt væri að hafa lítinn glugga í einu horni á skjánum svo heyrnalausir sjái þær fréttir sem er verið að tala um með myndum eins og aðrir þá fá þeir kannski meiri innsýn inn í fréttina.
Gaman að sjá þetta blogg hjá þér Berglind ég er ný búinn að sjá að þú sért með blogg.
kv Þórur Ingi
Þórður Ingi Bjarnason, 9.3.2007 kl. 08:20
Já nei nei, eins og Kjartan myndi segja, sums staðar tíðkast að hafa táknmálsfréttir í einu skjáhorninu. Ég velti fyrir mér hvernig sé fyrir heyrandi og heyrnarlausa að fylgjast saman með sjónvarpinu - erum við heyrandi ekki svo frek að við myndum einfaldlega segja að það væri óþægilegt að hafa þetta áreiti í þáttum og bíómyndum?
Berglind Steinsdóttir, 9.3.2007 kl. 19:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.