Ég held að launaleyndin skipti ekki alltaf alla öllu máli

Fyrir tæpum tveimur árum bað ég þá ferðaskrifstofu sem ég vann mest fyrir um launahækkun. Eigandinn sagðist því miður ekki geta hækkað tímakaupið mitt því að þá þyrfti hann að hækka líka hjá hinum og þessum sem hann nafngreindi. Og ég sagði: Og?

Ég veit að sjálfshælni er ekki til fyrirmyndar en það er kannski í lagi að vita hverjar eru manns sterku hliðar. Og ég henta brjálæðislega vel í skipin (þori ekki út í nákvæmt hrós). En eigandinn vildi ekki hækka kaupið sem var þá rúmar 1.200 kr. í dagvinnu - með orlofi, desemberuppbót, undirbúningstíma, bóka- og fatagjaldi. Atvinnuöryggi er í lágmarki og leiðsögumenn eru teknir af launaskrá á milli ferða ef þær eru tvær stuttar sama daginn, ef við erum t.d. beðin að fara með hóp í útreiðartúr kl. 12 og vera til kl. 16 og svo aftur með hópinn í mat kl. 19 til kl. 23. Dagurinn er undirlagður frá morgni til miðnættis en leiðsögumaðurinn er á kaupi í 2 x 4 tíma. Og ferðarekandanum gæti þótt rausnarlegt af sér að borga manni fyrir að fara út að borða með hópnum.

Eigandinn vildi sem sagt ekki hækka kaupið mitt þótt ég sannarlega vissi um styrkleika minn og færi fram á hækkun. Hann spurði ekki hvað ég gæti sætt mig við, reyndi ekki að koma til móts við mig en sagðist samt vona að ég héldi áfram. Hann spurði því ekki heldur hvort ég myndi þegja yfir því ef svo bæri undir - en það get ég svarið að ég hefði ekki gert það. Ég hefði viljað segja það öllum.

Ég myndi sem sagt vilja hafa frelsi til að aflétta launaleyndinni af sjálfri mér. Núverandi taxti leiðsögumanna er hvort eð er á netinu - og það er greitt eftir honum. Samt er ferðaþjónustan að verða næststærsti atvinnuvegur landsins. En leiðsögumenn og rútubílstjórar eru á skammarlegu kaupi og bera hitann og þungann af starfinu ásamt þjónum, hótelfólki, landvörðum og ýmsu öðru fólki sem á bara að finnast gaman að mæta í vinnuna.

Ekki að ég sé neitt stúrin ... ég vil bara gjarnan aflétta launaleyndinni og fá samanburðinn upp á borðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband