29% - tæp 40% - upp - niður - út og suður - RÚMUR HELMINGUR SVARAÐI

Ætli allar þessar skoðanakannanir sem eru reknar upp að augunum á okkur flesta morgna eða troðið í hlustir okkar með morgunkaffinu - nema hvort tveggja sé - séu í þökk okkar? Ég er náttúrlega abbó af því að aldrei er hringt í mig og ég fæ engin tækifæri til að mynda ríkisstjórn í símann, en er í alvörunni nokkur þörf á þessum tíðu skoðanakönnunum? Og svo eru þær sjaldnast marktækar því að yfirleitt er úrtakið 800 manns og þar af gefur sig upp rúmur helmingur.

Þetta er bara vísindaskáldskapur.

En samt skoðanamyndandi, við vitum það.

Ég þykist vita að u.þ.b. 300 þúsund íbúar séu mér sammála um þetta, flestir aðrir en starfsmenn Capacents og svo þeir útlendingar sem leggja ekki eyrun við.

Það væri samt gaman að sjá skoðanakönnun meðal þeirra sem horfðu á Húsvíkinginn tala í Silfri Egils á sunnudaginn var ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þótt skoðanakannanir séu oft hroðvirknislegar þá er nú kannski óþarfi að afskrifa þær svona einfaldlega.

Er 800 manna úrtak í raun svo lítið? Skoðanakannanir í Bandaríkjunum og Bretlandi, milljónaþjóðfélögum, sem oft er sagt frá hér, um fylgi við ríkisstjórnir og valdhafa eru oft með 2000-2500 manna úrtak. Það eru þó miklu margslungnari samfélög en við búum í.

Það er líka misvísandi að segja að það "gefi sig ekki upp nema helmingur". Það hljómar eins og rétt um helmingur fáist til að svara könnuninni. Þegar talað er um svarhlutfall (sem stundum er ekki nema 55-60%) er átt við að ekki náðist í nema 55-60% af upprunalega úrtakinu. Þessi tala er keyrð niður með því að hringja oft í viðkomandi, þar til þeir svara að lokum.

Í sjálfu sér þarf lágt svarhlutfall því ekki að vera sérstakt áhyggjuefni, nema menn hafi ástæðu til að ætla að í því felist systematísk skekkja. Hún gæti t.d. verið á þá leið að fólk sem kjósi Samfylkinguna sé almennt séð uppteknara og minna heima hjá sér en t.d. fólk sem kjósi Sjálfstæðisflokkinn. Um það er erfitt að fullyrða. 

Hlutfall óákveðinna af þeim sem á annað borð næst í er svo allt annað mál. Og raunar hefur það verið furðu lágt síðustu vikur, miðað við það sem gerist og gengur.

Stefán (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 01:08

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

En þegar þeir sem málið kemur við, oftast formenn eða aðrir aðstandendur stjórnmálaflokkanna, eru beðnir um viðbrögð eru þau fullkomlega fyrirsjáanleg - að vonum. Það gæti þá líka verið gaman að gerðar væru svona ófullkomnar kannanir ÁN ÞESS AÐ BIRTA NIÐURSTÖÐURNAR JAFNÓÐUM og þær svo skoðaðar í samhengi, jafnvel eftir kosningar. Þótt ég hafi áhuga á því sem er að gerast eru skoðanakannanirnar farnar að renna saman, og renna í braut ekki síst.

Um daginn las ég á einhverju blogginu frásögn manns sem tvisvar var hringt í sama kvöldið. Hann svaraði í bæði skiptin en algjörlega ólíkt, sennilega sannleikanum samkvæmt í fyrra skiptið en í seinna skiptið var hann með gjörólíkar skoðanir.

Sjálfsagt mælir þetta samt einhvern meginstraum og kannski er það nóg.

Berglind Steinsdóttir, 14.3.2007 kl. 07:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband