Föstudagur, 19. desember 2014
Get ekki Bondað - 007
Kannski er það vitleysa í mér en ég hef haft á tilfinningunni að margir séu hrifnir af Bond-myndunum. Það biður enginn um raunsæi, við vitum það, Jamesinn rennir sér berhentur niður grannan kaðal og sér ekki á gómunum, hann gengur í gegnum eldhaf og hárgreiðslan hreyfist ekki, hann fær hvorki vott né þurrt dögum saman en tapar hvorki holdum né kokhreystinni, horfir á langa talnarunu út undan sér og man hana. Nú er ég reyndar strax aðeins byrjuð að skálda því að ég hef aldrei getað horft á heila mynd. Ég reyndi enn í kvöld en ég finn ekki söguþráðinn. Daniel Craig stendur í miðjum gneistandi bálkestinum og heggur mann og annan. Samt skerðist ekki einu sinni nögl á honum og reyndar sér ekki mikið á hinum heldur. Fólk ætti að vera margdáið, búið að höggva það í spað og tæra það upp að innan en allt kemur fyrir ekki.
Guðminngóður, er ég alveg úti að aka? Geta allir Bondað nema ég?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.