Setjum bílana í kvóta

Í gærmorgun var ég á stjákli við Miklubraut og komst illa leiðar minnar vegna fjölda bíla sem var lagt uppi á gangstétt. Svo rammt kvað að aðsókninni að ekki-bílastæðunum að sumir bílar voru m.a.s. kirfilega lokaðir inni. (Gott á þá.)

Í gærkvöldi var ég í rútu sem komst ekki eftir Aðalstrætinu vegna þess að bílum var lagt uppi á gangstétt og niðri á akbrautinni. Til að teppa ekki umferðina endaði bílstjórinn með því að keyra samt áfram og dragast eftir einhverju járnvirki vinstra megin sem rispaði hliðina myndarlega (UL 636).

Og lausnin er ekki sú að búa til fleiri bílastæði, hvorki ofan jarðar né neðan. Töfraorðið er hugarfarsbreyting. Göngum meira, göngum a.m.k. frá þeim bílastæðum sem eru nú þegar til. Samnýtum ferðir. Notum strætó. Þéttum byggð. Við búum í samfélagi, ekki þúsundum einfélaga þar sem ekkert rúmast nema þrengsti hópur aðstandenda.

Og hvernig væri að þurfa að sækja um kvóta fyrir bílaeign? Ha? Er þetta ekki auðlind?? Það þyrfti auðvitað að endurnýja kvótaleyfið reglulega.

HUGARFARSBREYTING er lausnarorðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nóbb. Hugarfarsbreyting er hvorki töfraorð né lausnarorð. Árangursrík leið til að breyta hugarfarinu án þvingana væri hins vegar töfrum líkust og hana þekki ég ekki.

Við erum öll sófakartöflur inn við beinið og þegar við förum út úr húsi notum við bílana okkar fyrir sófa.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 13:29

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég er ekki að tala um þvingaða hugarfarsbreytingu. Og ég er ekki sammála þér um kartöfluna. Ég er t.d. meiri rófa og ég er viss um að Hrafn er gulrót. Þú sjálf hættir einu sinni að reykja vegna hugarfarsbreytingar. Þú mátt kalla hana vakningu ef þú vilt.

Berglind Steinsdóttir, 25.3.2007 kl. 15:34

3 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Og hver ætti kvótinn að ver? 3 bílar á heimili, 3 bílar á einstakling eða jafnvel kvóti á innflutnin, 100 bílar til íslands á ári? Ég tek undir að númer eitt tvö og þrjú þarf að gera hugarfarsbreytingu, hver sem sú rétta aðferð nú er.

Sigfús Sigurþórsson., 25.3.2007 kl. 18:56

4 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Sammála þér Berglind mín. Auðvitað þarf hugarfarsbreytingu. Ef við gefumst upp og ákveðum að Íslendingar séu ólæknandi sófakartöflur mun ekki bara stöðugt vanta bílastæði í miðbænum heldur umferðarslysum fjölga að sama skapi.

Steingerður Steinarsdóttir, 26.3.2007 kl. 10:36

5 identicon

Sammála. Hugarfarsbreyting er málið. Upp úr sófanum, kartafla!

Ásgerður (IP-tala skráð) 26.3.2007 kl. 21:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband