Mánudagur, 2. apríl 2007
Orlof og verkefni
Um helgina heyrði ég Kolbrúnu Bergþórsdóttur segja frá því í útvarpsviðtali að henni væri illa við samfellt orlof. Hún biður vinnuveitandann um að fá að taka eina viku hér og aðra viku þar því að henni er meinilla við samfellt fjögurra, ég tala nú ekki um fimm eða sex, vikna frí.
Og viðmælandinn skellti sér á lær í forundran.
Ég er hins vegar ekkert hissa á Kolbrúnu. Henni hlýtur að þykja gaman í vinnunni, hún skrifar, les og fylgist með. Þegar hún er heima hjá sér (ef það er eitthvað að marka pistlana hennar í Blaðinu) og hlustar á t.d. Sjostakóvits (sem Sigurður G. Tómasson spilar alltaf í þáttunum sínum á Útvarpi Sögu) verður það henni líka uppspretta vinnupistla. Hún hefur áhuga á vinnunni sinni.
Er ekki óþarfi að gefa sér alltaf að fólk sé í vinnu bara af því að hún borgar laun? Þegar maður er svo heppinn að fá að vinna við áhugamál sitt, vinna við eitthvað sem maður hefur valið að mennta sig til að gegna, er bara heimsins eðlilegasti hlutur að maður hlakki til að mæta í vinnuna.
Mér finnst hvimleið þessi tilhneiging sumra til að tala um vinnuna sem skyldu eina saman.
Og þó að maður hafi yndi af vinnunni sinni er ekki þar með sagt að manni þurfi að leiðast utan hennar.
Ég hef oft spurt fólk í nærumhverfi mínu hvað það myndi gera ef það eignaðist sisona x milljónir (segjum hálfan milljarð). Yfirleitt ætlar fólk að hætta að vinna. Yfirleitt segist það ekki ætla að gera eitthvað ákveðið, það ætlar bara að hætta að vinna.
Er svona skelfilegt að mæta í vinnu? Ekki finnst mér það.
Dæs. Stundum þyrmir svo yfir mig þegar ég hugsa um hvað fólk hlýtur að lifa leiðinlegu lífi ef það ætlar að kollvarpa öllu við það að eignast pening.
Athugasemdir
ertu nokkuð að spyrja rétta fólkið að þessari spurningu?
ingvi (IP-tala skráð) 2.4.2007 kl. 23:19
Já, annars hefði ég spurt vitlaust fólk! Þar á meðal eru vinir okkar MGG og SJóns. Hvernig myndir þú svara? Leyf mér giska: Þú myndir fara í framhaldsnám og skemmta þér svo við að laga tölvukerfi stjórnsýslunnar í Santíagó, hmm?
Berglind Steinsdóttir, 2.4.2007 kl. 23:38
já, ég myndi fara í framhaldsnám - eitthvað erlendis. Hvort ég myndi enda í Santíagó er nú ólíklegt, en ekki myndi ég hætta að vinna.
Ingvi Stígsson (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 11:10
Ef ég myndi fyrirvaralaust eignast hálfan milljarð króna yrði ég fljót (eða myndi reyna að flýta mér við það) að eyða a.m.k. 400 milljónum - í vini og vandamenn, óþekkta námsmenn, menningu og einhver ferðalög - og kannski stofna fyrirtæki fyrir restina. Duga kannski 100 milljónir skammt til að stofna fyrirtæki af þeirri tegund sem ég hefði áhuga á?
Berglind Steinsdóttir, 3.4.2007 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.