Launin í ferðaþjónustunni

Í síðustu viku lenti ég á spjalli við Steina Briem í athugasemdakerfi Ómars Ragnarssonar um laun í ferðaþjónustunni. Ég þekki ekki Steina en það rifjaðist upp fyrir mér launasaga (raunasaga) úr ferðaþjónustunni.

Árið 1998 sótti ég um sumarstarf í gestamóttöku hjá hótelkeðju (Cabin minnir mig). Ég var kölluð í viðtal í mars (já, svo snemma) og í kjölfarið var mér boðið sumarstarf í gestamóttökunni á Valhöll á Þingvöllum. Mér var bent á að nálgast launataxtana hjá VR hvað ég og gerði. Skv. þeim átti ég að fá 88.000 kr. í grunnlaun. Ég átti að vinna dæmigerðar hótelvaktir, tvo daga, frí tvo, vinna þrjá o.s.frv. Ég átti að keyra á milli á mínum bíl, fyrir mitt bensín og í mínum tíma. Ég átti að fá gistingu ókeypis (hahha) milli vaktanna og ókeypis að borða á vaktadögunum.

Á níu árum byrjar auðvitað að fenna í minningarnar en ég held að ég muni rétt að ég hafi reiknað út að heildarlaunin fyrir júní hefðu orðið 118.000 (og þá var 17. júní inni í planinu). Þá átti ég eftir að draga frá (skatt, auðvitað) ferðakostnað og reyna einhvern veginn að verðleggja ferðatímann. Aðstandendur hótelsins sögðu að þetta væri 20 mínútna keyrsla, en ég er mjög lélegur lögbrjótur þannig að það stóðst engan veginn.

Ég hætti við sumarstarfið, seldi bílinn, fór til Danmerkur og lagðist upp á nána vini. Það lukkaðist ágætlega og ég fékk engar kvartanir (engin laun heldur en það verður ekki allt metið til peninga, humm hmm).

Laun í ferðaþjónustu eru ekki svona hroðalega léleg lengur, en þau eru léleg samt. Og til að kóróna söguna spurðist um haustið að starfsfólkið á Valhöll hefði ekki einu sinni fengið útborgað. Huggun harmi gegn var náttúrlega að þurfa ekki að borga tekjuskatt ...

Þingvellir standa samt alltaf fyrir sínu

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ferðamannaiðnaðurinn er auðvitað velkominn hér... eins og annar iðnaður. En er einhversstaðar í veröldinni hálaunastörf í þessum bissness? Þá er ég ekki að tala um laun flugstjóra og hótelhaldara á lúxushótelum. En meira að segja á lúxushótelum eru þernurnar illa borgaðar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 3.4.2007 kl. 03:38

2 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Laun í ferðaþjónustu eru ekki góð.t.d vann ég á hópverðabíl og þar eru borguð örorkubætur launinn þar voru svo lá að ég reiknaði út launinn mín og svo það sem örorkubætur kom í ljós að ekki var munurinn mikill.  Nú er nám í ferðamálafræði að aukast og við sem stundum það nám ættum að gera eittvað í málunum og reina að snúa þessari þróun við.  Það er hægt með smá vinnu. 

Þórður Ingi Bjarnason, 3.4.2007 kl. 08:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband