Föstudagur, 13. apríl 2007
Skiptir útlit kvenna máli þegar þær tala?
Ég hlustaði í dag á fyrirlestur Karenar Ross um stöðu kvenna í stjórnmálum. Hún hefur tekið viðtöl við fjölda kvenna í stjórnmálum, dregið saman niðurstöður og reifað þær, áreiðanlega víða.
Ég kom aðeins of seint og hélt að ég fengi varla sæti en það var öðru nær, salurinn í Norræna húsinu var rétt hálfsetinn, kannski vegna þess að margir stjórnmálamenn eru einmitt á tveim landsfundum. Kannski var þess vegna svona mikið pláss fyrir þá sem eru óflokksbundnir.
Karen flutti mjög líflegan fyrirlestur og tók fjölda dæma til að rökstyðja þá skoðun sína og fjölmargra annarra að konur eru frekar en karlar dæmdar af fötunum, hárgreiðslunni og hjúskaparstöðunni.
Það voru engin ný sannindi, en sannindi samt. Góða vísu má kveða oftar en einu sinni. Sjálf gef ég reyndar oft hálstaui sjónvarpsfréttamannanna (eða viðmælenda) gaum og met hvernig það passar við jakkafötin. Úps. Stundum hefur það meira að segja orðið hálfgerður samkvæmisleikur á heimilinu.
En mér finnst kjánalegt að taka ekki fram að fyrirlesturinn yrði fluttur á ensku. Titillinn var þýddur og þess vegna gátu einhverjir ályktað að Karen Ross kynni íslensku.
Athugasemdir
Ef til vill finnst þér síddin á hálstaui stjórnmálamanna hérna vera úr hófi... Að bindið, síddin á því nái niður á stólsetuna þar sem þeir sitja gleyðir með eina tölu hneppta á jakkanum. Það hefur alltof oft fengið mig til að hugsa um hversu kauðskir þeir eru, hafa enn ekki lært þetta klassíska að bindið á að ná niður að buxnastrengnum en ekki metrum neðar. Svo er verið að hneykslast á konum?
Guðrún Magnea Helgadóttir, 13.4.2007 kl. 21:25
Við sönnum einmitt að það er talað um klæðaburð karla líka ... Spurningin er hins vegar hvort minna mark er tekið á körlum sem klæðast ... ehemm ... óheppilega.
Berglind Steinsdóttir, 13.4.2007 kl. 21:33
Já, Berglind mín og þeir eru til sem telja að karlmaður sem klæðist bleikum skyrtum hljóti að vera samkynhneigður. Klæðaburður er hluti af táknmyndakerfi samfélagsins og þess vegna finnst mér frábært að sjá einstaka sinnum að konur sem þora að klæða sig eftir eigin smekk og löngunum en láta ekki forskriftir annarra segja sér fyrir verkum geta líka náð langt.
Steingerður Steinarsdóttir, 14.4.2007 kl. 18:32
Hjartanlega sammála, ég var einmitt að leggja út af þessum pælingum í skrifum mínum um daginn... með smá beittum broddi ;c)
Jón Þór Bjarnason, 15.4.2007 kl. 15:29
Alveg klárlega skiptir það miklu máli, klæðnaðurinn. Mér finnst skipta meira máli klæðnaður kvennfólks í framastöðu en karlamanna, en það er nú sennilega bara algengt hjá karlmönnum og ofugt kannski hjá konum.
Sigfús Sigurþórsson., 15.4.2007 kl. 16:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.