,,Hagvöxtur - úlfur í sauðargæru"

Dr. Tóta er uppáhaldsleikritahöfundurinn minn í kvöld. Ég fór að sjá Epli og eikur í Möguleikhúsinu og veinaði úr hlátri. Það þykir mér gaman. Það er reyndar ekki fráleitt að hugsa sér að Oddur Bjarni Þorkelsson leikstjóri hafi líka haft eitthvað um málið að segja.

Við sögu koma hjónin Vala og Jóhannes fangelsisprestur, hann alltaf á hlaupum á eftir glæpakvendinu frú Stefaníu og Vala alltaf á hlaupum á eftir Jóhannesi, börn þeirra Baldur hinn óframfærni og Rakel sem er mest miður sín yfir að geta ekki framið glæp. Og fleira fólk.

Þetta er söngleikur og farsi um glæpi með skynsamlegri framvindu og góðum tímasetningum, fínum endalokum fyrir alla (nema Baldur, á honum var framinn galdur) og svo húmorískum og ófyrirsjáanlegum texta að ég sem sagt hló eins og ég væri í vinnu við það.

Skemmtilegast fannst mér að sjá þarna fínt nýtt fólk, Andreu Ösp Karlsdóttur, Baldur Ragnarsson og Hilmar Val Gunnarsson. Ég ætla að leggja þau nöfn á minnið - framtíðarleikarar hafa stundum byrjað ferilinn í Hugleik.

Til að allrar sanngirni sé gætt tek ég fram að Hugleikur er leikfélagið mitt. Og ég hafði ekki smekk fyrir Legi þótt það væri eftir Hugleik Dagsson.

Es. Lokasýning er í kvöld, fimmtudaginn sumardaginn fyrsta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Sammála. Hugleik bregst aldrei bogalistin.

Steingerður Steinarsdóttir, 19.4.2007 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband