Laugardagur, 21. apríl 2007
Vantar ekki starfsfólk á Akranesi?
Að sumu leyti vildi ég að ég væri ekki svona kaldhæðin - og mér finnst virkilega leiðinlegt að það skyldi brenna á miðvikudaginn - en 100 stöðugildi í Reykjavík eru eins og 1 á 100 sinnum minni stað. Hvað búa margir á Flateyri? Í hversu marga daga var fjallað um það þegar níu misstu vinnuna hjá Kambi þar um síðustu mánaðamót? Ég þekki ekki til en man eftir að hafa lesið eina mbl-frétt hálfum mánuði síðar. Það var náttúrlega mannleg ákvörðun sem bruninn í Austurstræti var ekki.
Hvernig er brugðist við þegar fólk á Stöðvarfirði missir vinnuna - vegna mennskra ákvarðana? Mönnum er sagt að fara í næsta fjörð. Og því spyr ég í kaldhæðni minni: Er ekki góður veitingastaður á Akranesi sem getur bætt við sig fólki? Strætósamgöngur eru alltént góðar þangað. Um það er ég alltaf að lesa hjá Gurrí sem fer næstum daglega á milli.
Ég samhryggist öllu því fólki sem sér fram á óvissu og tekjumissi.
Störf hátt í hundrað einstaklinga í hættu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góð ábending. Hvað skyldi gerast ef til væri 15000-20000 manna fyrirtæki í Reykjavík og það segði upp svo sem helming starfsmanna að ég tali nú ekki um öllum og lokaði sjoppunni eins og gerðist á Stöðvarfirði? Sú vá vofir yfir fleiri slíkum stöðum, litlum sjávarplássum sem eiga allt sitt undir veiðum og vinnslu sjávarafurða. Líklegt er að allir þeir sem misstu vinnu við þenna bruna í Reykjavík hafi 100 x meiri möguleika á vinnumarkaði þar heldur en þeir 9 sem misstu atvinnuna á Flateyri, enda vega þeir meira þar heldur en ef álverið lokaði í Hafnarfirði og allir þar misstu vinnuna. Þannig er nú hlutföllin en það vill engin vita, aðeins 9 misstu vinnuna, það getur ekki verið mikið mál. Kanski verður ekki langt í það að það verði ekki bara "Jörð til sölu" út á landi, heldur, "Sjávarþorp til sölu". Hver veit? Það er raunar staðreynd í dag þar sem mörg glæsileg einbýlishús eru til sölu á þessum stöðum fyrir smánar upphæð en seljast ekki vegna þess að lífsbjörgin hefur verið tekin í burtu. Þar vill engin eiga hús lengur.
Viðar Friðgeirsson, 21.4.2007 kl. 12:08
Hafði ekki hugsað málið frá þessu sjónarhorni. Þakka þér fyrir að benda mér á þetta.
Steingerður Steinarsdóttir, 21.4.2007 kl. 22:37
Já, þótt ég sé borgarbarn og rati varla í Kópavoginn rennur mér alltaf til rifja þegar vinna er flutt til í nafni hagræðingar. Hverra??? Ekki þeirra sem hafa lífsviðurværi sitt af starfinu á staðnum.
Sjálfbærum byggðum hefur verið gert erfitt fyrir vegna þess að einhverjir aðrir hafa grætt meira á því að flytja *grmpf* atvinnutækifærin burtu.
Og þótt ég sé sjálf rati í röð Austfjarðanna hef ég einmitt heyrt að austan að í hinni miklu uppbyggingu þar sjái menn sér núna leik á borði að selja meðan verð er skikkanlegt, koma sér í burtu og hasla sér völl annars staðar - vegna þess að þegar þessum verkefnum ljúki blasi ekki gott við. Veiðirétturinn er farinn suður með kvótagreifunum - í nafni hagræðingar - og þegar þenslunni lýkur ...
Ég trúi þessu, því miður. Og hvar er umræðan þegar menn tapa afkomumöguleikanum af mannavöldum?
Samt finnst mér leiðinlegt að það skyldi brenna í miðbænum.
Berglind Steinsdóttir, 22.4.2007 kl. 10:38
Góðar athugasemdir Berglind. En þetta er auðvitað týpískt. Allt er mikilvægara sem viðkemur Reykjavík en afgangnum af landinu. Ég man ekki betur en Davíð hafi á sínum tíma gefið í skynað engin ástæða væri til að byggja upp landsbyggðina, fólk gæti bara flutt til Reykjavíkur.
Kristín M. Jóhannsdóttir, 22.4.2007 kl. 17:12
Verð hafa rokið upp á húsum á Reyðarfirði og nágrenni... en ekki mikið á Stöðvarfirði. Tæpl 250fm hús fór á 8.5 milj þar fyrir 2 árum og fer ekki mikið hærra í dag þar sem engin atvinna er á staðnum fyrir aðkomufólk.... bæjarbúar sækja vinnu til Fáskrúðsfjarðar eða Reyðarfjarðar yfirleitt. Hvernig var með Samherja þegar þeir "lofuðu" að frystihúsið myndi verða starfrækt áfram? ónei... ekki stóðu þeir lengi við það og margir misstu vinnuna og fluttu í burtu.
Saumakonan, 22.4.2007 kl. 21:02
Nú man ég ekki lengur hvað ég hef hugsað, hvað skrafað og hvað skrifað á annarra manna bloggsíður um helgina. Ég man þó enn hvað mér finnst - mér finnst skaði að atvinnurétturinn hafi verið tekinn af mörgum byggðum og hús verðfelld. Það er sjúkt þegar menn eru farnir að kaupa íbúðarhús á kannski Tálknafirði til þess eins að halda þar gott partí einu sinni á ári.
Veiðirétturinn er á fárra manna höndum, jafnvægið í sjávarútvegi hefur raskast - og skuldir aukist. Sjávarútvegurinn er skuldugur hvernig sem á því stendur. Hvert fór peningurinn?
Ég þykist vita svarið ...
Berglind Steinsdóttir, 22.4.2007 kl. 21:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.