Umræðugrundvöllur skoðanakannananna

Þegar ég var í uppeldis- og kennslufræði var okkur einu sinni raðað í hópa og svo áttum við að teikna tré. Fyrirmælin voru ekki önnur. Ég kann ekki að teikna og, það sem verra er, ég hef ekki sérlega gaman af að þykjast teikna þannig að ég greip bara til grunnskólateiknikennslufræða Sigfúsar Halldórssonar og teiknaði stórt brúnt tré eins og fyrirfinnst ekki einu sinni í Hallormsstaðaskógi, setti ofan á það mikið laufskrúð, gilda grein út úr því miðju, á hana krakka með iðandi fótleggi - og þar sem tíminn ætlaði aldrei að klárast setti ég fólk í útikroppi við rót trésins.

Þegar loks mátti hætta að teikna kom á daginn að sumir höfðu nostrað við æðar hinna ýmsustu laufa trjánna, gert alíslenskar birkihríslur með smákræklóttum greinum og sumir höfðu jafnvel teiknað stöðuvötn og sumarbústaði.

Svo kom leiðbeinandinn, sálfræðingur minnir mig, og bað okkur að rýna í teikningar hvert annars. Það sem ég sem sagt vissi ekki var að þetta ætti að verða umræðugrundvöllur og við áttum að ráða í og láta ráða í persónuleika okkar út frá þessum teikningum. Ég fékk sem sagt þann vitnisburð að ég væri mjög traust og laðaði til mín fólk.

Ég mátti hrekja umsögnina ef ég vildi.

Mér þótti þetta allt hið skemmtilegasta, einkum þegar upp var staðið, en almáttugur minn hvað þetta var mikill samkvæmisleikur. Og það sem ég vildi sagt hafa var það að þegar ég horfði í dag á þáttinn um Suðurkjördæmi helltust yfir mig leiðindin þegar frambjóðendur voru spurðir út í afstöðu til nýjustu talna og um hugsanlegt ríkisstjórnarsamstarf. Ég er skolli mikill áhugamaður um framvindu mála í vor en mig langar að heyra um stefnumálin, ekki hver teiknaði feitasta tréð.

Ég vildi gjarnan lenda í úrtaki og vera spurð hvort ég vildi fækka skoðanakönnunum. En ég er með bannmerki í símaskránni og lét taka mig út af lista Hagstofunnar. Þá er gott að hafa bloggsíðu, téhéhé.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Stórskemmtileg saga. Ég ætla beint heim að teikna tré.

Steingerður Steinarsdóttir, 23.4.2007 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband