Þriðjudagur, 24. apríl 2007
Leiðsögumenn, ó, gædar
Ætti maður ekki annars frekar að tala um gæta, sbr. læti?
Þar sem 30 leiðsögumenn koma saman, þar er ekki einn hugur! Ég sat framhaldsaðalfund Félags leiðsögumanna í gærkvöldi sem snerist að mestu leyti um lagabreytingar þær sem við frestuðum að taka afstöðu til á aðalfundi félagsins í febrúar.
Þær tvær breytingar sem samþykktar voru og eru mér núna eftirminnilegastar kveða á um að formaður félagsins skuli vera fagmenntaður (fagfélag sett ofar stéttarfélagi) og að fundargerðir stjórnar skuli birtar innan 10 daga frá fundum. Margar aðrar breytingar voru þó gerðar og má vænta nýju laganna á netinu innan langs tíma.
Óvæntur bónus undir liðnum önnur mál var kynning kjaragerðar. Samningar eru lausir í lok ársins og ef ekki verður gerð ansi hraustleg lagfæring á samningunum má búast við talsverðum atgervisflótta - nema leiðsögumenn séu farnir að semja betur en taxtarnir kveða á um. Því miður held ég að það sé lítil vegna þess að ferðaskrifstofur skáka í skjóli kjarasamninganna og vorkenna öllum öðrum í ferðaþjónustu meira en leiðsögumönnum. Finnst a.m.k. okkur.
Kröfugerðin er skynsamleg og sanngjörn og ég er mjög vongóð um að nefndinni takist að landa leiðréttingu handa okkur. Mér er náttúrlega engin vorkunn, treysti ekki á þetta starf eða þessar tekjur, en fólk á að geta lifað af þessu starfi. Og hvaða önnur stétt býr við það að klukkan 10 á mánudagskvöldi sé hægt að hringja í hana og segja: Ég þarf þig ekki á morgun, þriðjudag, skipið kemst ekki að bryggju?
Einhver?
Svo lýsi ég því yfir að ég saknaði Steingerðar á fundinum!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.