Fimmtudagur, 20. ágúst 2015
Maraþondagurinn
Ég er frekar þrautseig en ekki hraðskreið á hlaupum. Ég hef aldrei haft metnað til að verða afreksmaður í íþróttum en ég vil hreyfa mig, vera hraust og hafa gaman. Og mér finnst gaman að heyra fólk hvetja til þess arna.
Fyrirlestur Halldóru Geirharðs var feiknarlegur innblástur á hádegisfundinum í dag. Góð vísa er aldrei of oft kveðin og hún tók okkur vara við því að óttast hið óþekkta. Sjálf tók hún þeirri áskorun að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu þrátt fyrir að hlaupa aldrei. Ekki síður var athyglisvert hvernig hún talaði sjálfa sig inn á að vera ekki börnum sínum slæm fyrirmynd þegar fjölskyldan var á heimshornaflakki og lagði leið sína í hinn dimma og óþekkta Amazon-skóg.
Og kannski var Kathrine Switzer ekki með nein glæný sannindi þegar hún talaði um hvernig konur hefðu ekki mátt keppa í maraþonhlaupum -- en það er bara vegna þess að hún er meðal þeirra sem ruddu brautina. Ég vissi ekki í síðustu viku að konum hefði verið bannað að keppa og borið við að þær gætu orðið skeggjaðar og fengið legsig! Í ár eru 100 ár liðin síðan konur á Íslandi fengu kosningarrétt. Okkur þykir það sjálfsagt í dag en okkur er hollt að minnast þess að áfangarnir í jafnréttismálum vinnast ekki baráttulaust. Og við eigum að halda áfram að velta steininum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.