Atvinnuleysið er tímabundið

Ég held að við vitum öll að við komumst tiltölulega fljótt upp úr dýpsta öldudalnum vegna kórónuveirunnar. Einangrun, sóttkví og takmarkað samneyti fólks virkar og Ísland verður spennandi áfangastaður strax í sumar vegna víðáttunnar og fámennisins.

Engu að síður sýnist mér augljóst að vegna mikils útstreymis fjár úr ríkissjóði, hvort sem það var handbært fyrir eða er tekið að láni í einhverjum mæli, muni skattheimta aukast á næstu árum, minna verði byggt upp og minni þjónusta veitt. Það hlýtur að bitna á grunnþjónustu, því miður. Þess vegna er brýnt að fyrirtæki sem fá fyrirgreiðslu taki ekki upp á þeim andskota að borga sér arð eða kaupa bréf í sjálfum sér. Þetta er tekið fram í lagasetningunni en því miður er full ástæða til að óttast stóru fyrirtækin.

Við munum borga 2.000 starfsmönnum Icelandair laun í uppsagnarfresti til að tryggja afkomu þeirra og vonandi rætist fljótt úr þar en hver mun síðan eiga Icelandair þegar rofar til? Ég flaug einu sinni með Icelandair á síðasta ári og borgaði (eða stofnunin sem vildi fá mig í viðtalið) sjúklega hátt verð fyrir vont sæti en kannski var ég bara óheppin. Ég sé í mínum vinahópi mikla væntumþykju í garð félagsins og vonandi stendur það með sínu fólki þegar við erum komin í gegnum skaflinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband