Helmingur mannkyns án atvinnu?

Menn eru byrjaðir að giska á að eftirköst kórónuveirunnar verði að helmingur mannkyns verði án lífsviðurværis. Ég hef séð bollaleggingar um að helmingur verði án atvinnu sem mér finnst ekki eins alvarlegt. Miðað við talningu nálgast fjöldi jarðarbúa 8 milljarðana óðfluga, þrátt fyrir dauðsföll telur stöðugt upp, ekki niður. Núna er talan 7.781.208.430 manns. Samt hafa 2.503.282 börn undir fimm ára aldri dáið á árinu og 6.777 manns úr hungri Í DAG.

Hagkerfi eru ekki upphaf og endir alls. 100% starfshlutfall, 40 tíma vinnuvika ekki heldur. Það sem skiptir máli er að fólk hafi í sig og á, haldi heilsu og geti leyft sér eitthvað. Það er eðlilegt að við leggjum öll eitthvað af mörkum. Í sumum heimshlutum streðar fólk allt lífið og þannig held ég að það hafi verið á Íslandi þangað til fyrir hundrað árum eða svo. Við sem erum á dögum núna getum ekki skilið hvað lífið muni hafa verið erfitt og lítið spennandi. Mikil ferðalög Íslendinga eru tiltölulega nýtilkomin. Núna erum við mörg sem náum nokkuð góðu jafnvægi milli vinnuframlags og frítíma. Hvað ef við reyndum að jafnvægisstilla enn meira og hugsa ekki allt út frá hagvexti? Hagvöxtur eykst ef rúða brotnar, flugvél bilar eða maður fær krabbamein. Er það besti mælikvarðinn á velsæld og líðan? Auðvitað eykst hagvöxtur líka með meiri framleiðni. En hvað eru íbúar jarðar að framleiða? Skrilljón boli í þúsund litum svo við getum mætt í vinnuna í öðrum fötum í dag en í gær. Mat sem við getum ekki klárað. Lúxusskemmtiferðaskip sem byrgja okkur sýn. Svakalega mikið af einnota dóti sem safnast í skápum sem við þurfum síðan að framleiða og kaupa fleiri til að koma öllu dótinu fyrir.

Sjálf á ég alveg haug af fjölnota plastdöllum sem eru aldrei allir í notkun í einu. Aldrei.

Mynd gæti innihaldið: innanhúss

Hvað með að skoða neyslumynstrið okkar, ferðahegðun og kauphegðun?

Það er svakalegt að fólk deyi úr hungri, vosbúð, eymd, sársauka, deyi vansælt, afskipt, deyi að óþörfu, en það er ekki svakaleg tilhugsun í mínum augum að hagkerfið hægi á sér, að kjör jafnist út, að fólk vinni eins og það þarf og getur. Mér leiðist sóun og ég held að við höfum verið dugleg að framleiða fyrir glatkistuna.

Að lokum legg ég til að betur verði samið við stéttirnar sem sinna börnum, sjúkum og gömlum en stéttirnar sem vakta peningana. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband