Eitt sinn bróðir

Gummi bróðir minn, meintur garðyrkjumaður á Sólheimum, fékk lánaðar hjá mér 7 milljónir árið 2008. Ég var í þeirri góðu trú að hann myndi endurgreiða lánið þegar hann gæti, þinglýsti ekki skuldinni, sendi ekki í innheimtu eða gerði formlegu gerningana.

Til viðbótar láninu frá mér fékk hann a.m.k. 10,5 milljónir hjá mömmu og pabba. Það skráði pabbi hjá sér í sömu góðu trú en þinglýsti ekki af því að við erum fjölskylda. Ég veit að allir glæpamenn koma úr einhverjum fjölskyldum þannig að hlutfallið í okkar fjölskyldu er kannski ekki óhagstætt en við vorum bæði grunlaus, við pabbi, eða ég held það. Hann er ekki lengur til frásagnar.

Kannski er skuldin töpuð af því að ég er ekki með pappíra til að senda í innheimtu. Gummi viðurkennir samt alveg lánið og gengst við skuldinni, honum finnst ég bara ekki þurfa á þessum peningum að halda. Hann hefur hælst um við fólk sem ég þekki sem hefur hringt í mig alveg hneykslað á honum. 

Þegar mamma dó og við hin systkinin vorum grátandi hvert í fanginu á öðru tók hann mynd af mömmu á dánarbeði með rós í fanginu og birti á Facebook með einhverri saknaðarkveðju, allt til þess að fá samúð frá Facebook-samfélaginu. Og hann fékk hana en aðallega frá fólki sem hann þekkir ekki vegna þess að hann sendir fullt af fólki vinabeiðni sem hann þekkir ekki. Þeir sem svara eru uppistaðan í vinahópnum hans.

Þá var pabbi á Hrafnistu sem varð lokaheimili hans. Á einu ári og níu mánuðum kom Gummi fjórum sinnum til pabba og í öll skiptin til að betla peninga. Pabbi var því fegnastur að vera ekki með peninga á sér en spurði mig einu sinni með ómælda sorg í augunum hvort ég gæti lánað Gumma x upphæð. Þótt ég muni ekki upphæðina man ég sorgina í augunum á pabba og sársaukann sem ég upplifði því að mamma var þá nýdáin og það eina sem skipti Gumma máli var að hann átti eftir að fá einhvern arf eftir hana. Pabbi var skýr í höfðinu, vissi hvað hann var orðinn gamall og lúinn í líkamanum en mundi og skildi alveg fram í andlátið. 

Fólk sem þykir vænt um mig, fólk sem ber umhyggju fyrir mér segir: Berglind, hættu að hugsa um Gumma, þetta gerir þér ekki gott. Því fyrr sem þú útilokar hann úr huga þér, því betra.

Vitið þið hvað? Ég vildi svoleiðis óska þess að þeir sem voru búnir að sjá úr hverju hann var gerður strax um tvítugt hefðu hnippt í mig. Það getur vel verið að ég hefði skellt skollaeyrum við í einhvern tíma en þegar fleiri og fleiri tákn um siðblinduna í honum birtust hefði ég kannski losnað við mistökin sem ég gerði. Ég get alveg bælt niður sársaukann og ég get þaggað niður í sjálfri mér en hann er enn laus og nú á Sólheimum þar sem hann sér örugglega fín fórnarlömb í hverju horni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband