Fimmtudagur, 28. maí 2020
Átakasækni?
Fyrir 20 árum var ég komin vel inn í fullorðinsárin og tók að mér kennslu norður í landi. Það voru mikil hlaup hjá mér allan veturinn enda ég nýútskrifaður kennari og var að gera margt í fyrsta skipti. Ég sá þar að auki um vistina þriðju hverju viku á móti tveimur öðrum kennurum. Ég átti ekkert einkalíf enda bjó ég næstum með nemendum. Um vorið króaði skólastjórinn mig af og rukkaði leigu sem hann hafði látið á sér skilja við ráðningu um haustið að væri engin af því að húsnæðið var bara eins og kennslustofa á heimavistinni. Fyrri heimavistarstjórar höfðu ekki borgað leigu.
Eftir álagið um veturinn og við þessa skyndilegu árás fór ég að hágráta og ég fæ enn örari hjartslátt þegar ég rifja upp þessa framkomu. Hitt sem mér er minnisstætt frá stjórnunartækni þessa skólastjóra er þegar hann spurði okkur kennarana á kennarafundi hvernig hann ætti að fara að því að spara fyrir skólann sem þyrfti að skera niður.
Þessi skólastjóri hafði verið í framboði fyrir stjórnmálaflokk sem þurrkaðist út á svæðinu við framboð hans en ég er næstum viss um að þegar hann var sjálfur nýútskrifaður stærðfræðikennari var í honum mikill kraftur sem sást m.a. á því að hann byggði upp skólann að miklu leyti. Þegar ég kom til sögunnar sniðgengu nemendur þó tímana hans ef aðrir kennarar voru í boði, meira að segja þótt þeir þyrftu fyrir vikið að vera í tímum til kl. 18 á föstudegi.
Ég tók ekki slaginn.
Nokkrum árum síðar var ég yfirmaður manns sem hafði ánetjast áfengi mjög illilega. Hann var flinkur í sínu fagi en hafði fengið djobb sem hann réð ekki við, ekki síst fór hann á skjön við allar reglur sem giltu um starfið og hann hafði tekið þátt í að semja. Ég starfaði þarna með pólitískri nefnd og þar var maður sem hélt hlífiskildi yfir hinum ólánsama drykkjumanni. Ég hafði að sumu leyti samúð með undirmanni mínum og hefði alltaf viljað setja honum stólinn fyrir dyrnar en nefndin tók það ekki í mál. Hann var fársjúkur af áfengisneyslu og hefði nefndin viljað honum gott hefði hún einmitt tekið í taumana. Sá sem helst skaðaði hann með því að styðja hann var oft dónalegur við mig - enda ég miklu yngri kona en hann karl. Ég tók ekki slaginn heldur gafst upp. Drykkjumaðurinn græddi ekki á því. Hann hringdi í mig á næturnar til að úthúða mér og sendi síðan einhvern til að skera á öll dekkin á bílnum mínum. Lögreglunni var alveg sama um líflátshótanir hans enda kom á daginn að hann stóð aldrei við þær ... Nú er þessi maður sjálfur nýlátinn, einn og vinalaus, afskiptur af pólitískum vinum sínum.
Fyrirsögnin hjá mér var: Átakasækni? Ég er nefnilega að velta fyrir mér ýmissa hluta vegna hvenær maður er farinn að sækja í eða forðast átök. Ég tel mig hafa réttlætiskennd og ég vil að fólk sitji við sama borð og hafi sömu tækifæri, þó auðvitað ekki án þess að fólk njóti verðleika sinna. Ég vil líka að fólk virði reglur enda búum við í samfélagi manna og verðum að geta gengið út frá sameiginlegum ramma, sbr. umferðarlögin og almennu hegningarlögin.
Ég horfi inn á við og spyr mig hvort ég sé ferköntuð. Mér finnst ekki en enginn er dómari í eigin sök.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.