Þriðjudagur, 2. júní 2020
1,1% niður í 0,35% vexti
Ég á sparifé. Innlánsvextirnir voru fyrir helgi 1,1% en núna er búið að lækka þá niður í 0,35%. Fékk ég bréf í pósti? Nei. Fékk ég tölvupóst? Nei. Fékk ég tilkynningu í heimabankanum? Nei, það nýjasta þar er frá 7. júní 2018 um að árgjöld og seðilgjöld muni hækka 1. ágúst. Ég er ekki blankasta manneskjan í landinu en mig varðar það samt þegar verið er að hækka einhver tilbúin málamyndagjöld sem koma ekki til af vinnu eða neinum raunkostnaði.
Nú eru dæmafáir tímar, já, en í góðæri eru bankarnir líka hollastir sjálfum sér. Og hér er engin alvörusamkeppni, ekki í bankaviðskiptum, ekki í viðskiptum með tryggingar, matvöru eða netþjónustu.
Við erum í barbararíki og getum ekki rönd við reist nema fara í annað efnahagsríki. En maður er átthagabundinn að sumu leyti af því að fólkið manns er hér, ræturnar og tengslin. Og eitt hefur Ísland sem er ekki að finna alls staðar og það er frelsi til að vera úti. Ég þakka fyrir að hafa mátt mæta í vinnu og hlaupa í 20 km radíus ef ég vildi. Ég þakka líka fyrir þríeykið og ýmsa aðra fagmenn en því miður er landinu ekki vel stjórnað og hefur kannski aldrei verið vegna mannfæðar. Sjálftökumönnum er ekki settur stóllinn fyrir dyrnar. Aldrei. Menn eigna sér fiskinn og bráðum jökulinn, vatnið og loftið til viðbótar við peningana sem verða hér til.
Ég er mjög gröm. Ég er rænd af bankanum mínum og hann lætur mig ekki einu sinni vita.
Athugasemdir
Tek undir þetta, Berglind. Á einnig sparifé, öryggissjóð á bankareikningi, sem skerðir eftirlaunin mín frá TR, þe vegna eignar, en vaxtatekjurnar hafa frímark sem hefur bætt mér það upp. Nú er fátt annað að gera en taka þetta út, setja undir koddann eða eyða.
Kolbrún Hilmars, 2.6.2020 kl. 09:57
Ég tékkaði á mínum reikning - hann er með 0,05 % vexti ... Hann heitir Vaxtasproti ?
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 2.6.2020 kl. 14:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.